Fótbolti

Milljóna sekt á leiðinni fyrir að mæta í röngum bíl á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kingsley Coman tryggði Bayern München sigur í Meistaradeildinni síðasta haust.
Kingsley Coman tryggði Bayern München sigur í Meistaradeildinni síðasta haust. EPA-EFE/Alexander Hassenstein

Hjá þýska félaginu Bayern München er það bara ein bílategund sem skiptir máli og það er eins gott fyrir leikmenn liðsins að hlýða því. Því fær veski Kingsley Coman líklega að kynnast á næstunni.

Kingsley Coman verður væntanlega sektaður um fimmtíu þúsund evrur fyrir að mæta á Mercedes bíl á æfingu liðsins á dögunum en allir leikmenn eiga á mæta á æfingar og í leiki á Audi bílum. Audi er stór styrktaraðili hjá Bayern.

Það ætti samt ekki að vera mikil vandræði fyrir leikmenn Bayern að fylgja þessum reglum enda fá þeir allir bíl frá Audi.

Þrátt fyrir þetta gengur einum leikmanni liðsins erfiðlega að fylgja þessari reglu.

Þýska blaðið BILD segir frá hrakförum Kingsley Coman þegar honum var ekki hleypt inn á æfingasvæðið á Mercedes bílnum sínum. Sportbild segir líka að hann eigi vona á fimmtíu þúsund evru sekt sem gerir um 7,6 milljónir íslenskra króna.

Audi bílaframleiðandinn á 8,33 prósent hlut í Bayern og samstarfið þeirra er sagt vera að skila félaginu 42,8 milljónum punda á ári.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi 24 ára gamli Frakki gerist sekur um að brjóta þessar reglur. Hann mætti á McLaren sportbílnum sínum á æfingu í fyrra.

Kingsley Coman baðst þá afsökunar en hann sagði þá ástæðuna vera að það hafi verið smá beygla á Audi bílnum hans.

Hann bauðst líka til að mæta til Ingolstadt þar sem Audi verksmiðjan er og gefa eiginhandaráritanir í klukkutíma.

Coman hefur tekið þátt í tuttugu leikjum með Bayern í Bundesligunni á þessu tímabili og er með þrjú mörk og tíu stoðsendingar í þeim.

Það var einmitt Coman sem skoraði sigurmark Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×