Fótbolti

Boða til mót­mæla fyrir utan Parken því þeir fá ekki að vera á pöllunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Søren, Marius og Carl hafa ekki fengið að mæta á Parken síðan í október.
Søren, Marius og Carl hafa ekki fengið að mæta á Parken síðan í október. Lars Ronbog/Getty

Stuðningsmenn FCK hafa boðið til mótmæla fyrir utan Parken, heimavöll liðsins, fyrir stórleik FCK og Midtjylland sem fer fram á Parken í dönsku úrvalsdeildinni á morgun.

Harðkjarna stuðningsmannahópur FCK, sem kallar sig Sektion 12, hefur boðað til mótmælanna en þar ætla þeir að mótmæla því að þótt samfélagið sé að opna meira og meira - er áhorfendum ekki hleypt á fótboltaleiki.

„Fótboltafélögin hafa reynt að ræða við yfirvöld. Það er aðallega vegna þess að þau blæða fjárhagslega. En það er einnig vegna þess að þau vita hvað þetta þýðir fyrir marga af þeirra stuðningsmönnum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Það lítur út fyrir það að yfirvöld vilji ekki ræða þetta þrátt fyrir að sem betur fer sé samfélagið að opna hægt og rólega. Það gildir meðal annars um búðir og aðrar menningarstofnanir utandyra en af einhverja hluta vegna ekki fótboltaleiki.“

„Við skiljum ekki að það sé hægt að fara í dýragarðinn og sjá ljónin þar en þú mátt ekki sjá þau í Parken. Við verðum að bera virðingu fyrir fótboltanum. Fótboltinn er menning. Stuðningsmenn til baka á vellina núna!“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

Þeir ætla að hittast klukkan 15.30 en leikur FCK og Midtjylland hefst klukkan 18.00. Midtjylland er í öðru sætinu með 39 stig, FCK er í fjórða sætinu með 34 stig en Brøndby er á toppnum með 41 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×