Fótbolti

Segir engar líkur á því að Gerrard yfirgefi Rangers og taki við Liverpool á næstunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Gerrard mátti vera glaður um helgina.
Steven Gerrard mátti vera glaður um helgina. getty/Robert Perry

Engar líkur eru á því að Steven Gerrard yfirgefi Rangers á næstunni og taki við Liverpool. Þetta segir Dave King, fyrrverandi formaður Rangers sem varð skoskur meistari um helgina.

Gerrard hefur gert frábæra hluti hjá Rangers síðan hann tók við liðinu 2018. Í vetur hefur Rangers haft gríðarlega mikla yfirburði í skosku úrvalsdeildinni og hefur ekki enn tapað leik.

Gerrard er ein mesta goðsögn í sögu Liverpool og hefur verið orðaður við endurkomu á Anfield. Englandsmeisturum hefur gengið bölvanlega að undanförnu og tapað sex heimaleikjum í röð. Þá hefur Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, verið orðaður við þýska landsliðið.

King, sem réði Gerrard til Rangers fyrir þremur árum, segir að hann sé ekki á förum til Liverpool, allavega ekki á næstunni.

„Það eru núll prósent líkur á því að Steven fari til Liverpool á næstu árum. Fyrir því eru tvær ástæður. Liverpool skiptir ekki svo auðveldlega um stjóra. Klopp hefur gert frábæra hluti, þeir hafa átt erfitt tímabil en hann er samt stórkostlegur stjóri og verður áfram þarna á næsta tímabili,“ sagði King.

„Svo er Steven ekki maður sem rýfur samning. Hann framlengdi samning sinn við Rangers vitandi að hann ætti að vinna og verja titilinn. Að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu var annað markmið. Ég held að Steven verði ekki sáttur með að vinna bara deildina. Ég veit að hann vill verja titilinn og komast í Meistaradeildina.“

Rangers sigraði St. Mirren, 3-0, á laugardaginn. Degi síðar gerði Celtic markalaust jafntefli við Dundee United. Þar með var ljóst að Rangers væri orðið meistari í 55. sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×