Jóhann Berg byrjaði er Burn­l­ey náði í stig gegn Arsenal þökk sé klaufa­gangi X­haka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Wood fagnar marki sínu í dag.
Chris Wood fagnar marki sínu í dag. Jon Super/Getty Images

Arsenal náði aðeins í stig gegn Burnley á Turf Moor í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 1-1 en jöfnunarmark heimamanna var í skrautlegri kantinum.

Lærisveinar Mikel Arteta byrjuðu leikinn frábærlega og var staðan orðin 1-0 Arsenal í vil eftir aðeins sex mínútna leik. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þá eftir að hafa fengið boltann frá Willian vinstra megin í teignum.

Aubameyang kom inn í teiginn og lét vaða með hægri fóti í nærhornið á marki Burnley. Nick Pope náði að slæma hendi í knöttinn sem rann þó yfir línuna og staðan orðin 1-0 gestunum í vil.

Þegar sex mínútur voru til hálfleiks kom jöfnunarmarkið. Það var með því skrautlegra sem sést hefur á leiktíðinni.

Eftir mjög hægt – og hættulegt – uppspil Arsneal sendi Bernd Leno bolann á Granit Xhaka innan vítateigs. Xhaka var mjög nálægt markverðinu og sneri baki í völlinn. Xhaka ákvað að reyna sendingu út til hægri en boltinn fór ekki nægilega hátt upp í loftið, þess í stað endaði hann í skrokknum á Chris Wood og í netið.

Ótrúlegt mark í alla staði og staðan orðin 1-1. Þannig var hún enn þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Á 83. mínútu leiksins dæmdi Andre Marriner – dómari – vítaspyrnu ásamt því að hann rak Erik Pieters af velli fyrir að handleika boltann innan teigs. Eftir að atvikið var skoðað af myndbandsdómara leiksins var ljóst að Pieters tókst að koma í veg fyrir mark með því að boltann í öxlina. Vítaspyrnan og rauða spjaldið því dregin til baka.

Í uppbótartíma leiksins var orrahríð að marki Burnley. Eftir fjölda skota sem höfnuðu í varnarmúr heimamanna þá átti Dani Ceballos skot sem small í stönginni og lokatölur á Turf Moor því 1-1 í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson spilaði 68 mínútur í leiknum sem eru frábærar fréttir fyrir hann sem og íslenska landsliðið.

Arsenal er eftir leik dagsins í 10. sæti með 38 stig á meðan Burnley er í 15. sæti með 30 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira