Mason Mount tryggði Chelsea sigur á Anfi­eld | Fimmta tap Liver­pool í röð á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Boltinn syngur í netinu eftir skot Mason Mount.
Boltinn syngur í netinu eftir skot Mason Mount. EPA-EFE/Phil Noble

Leikur kvöldsins var töluvert skárri en markalaust jafntefli Chelsea og Manchester United á dögunum. Sigur gestanna var fyllilega verðskuldaður en þeir fengu betri færi og voru almennt betri aðilinn í kvöld.

Timo Werner hélt að hann hefði loks brotið ísinn eftir það sem virðist vera orðinn fjöldi ára án þess að skora. Þýski framherjinn fékk sendingu inn fyrir vörn Liverpool, tókst að koma boltanum fram hjá Alisson í marki Liverpool – sem var kominn út úr teig sínum – og á endanum í netið.

Er markið var skoðað kom í ljós að litli putti Werner var fyrir innan og um rangstöðu að ræða. Markið stóð ekki. Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks kom fyrsta, og eina mark leiksins.

Mason Mount fékk þá sendingu frá N‘Golo Kante sem hafði unnið boltann á vallarhelmingi Liverpool. Mount átti svo frábært skot sem Alisson átti ekki möguleika í og staðan orðin 1-0 gestunum í vil.

Síðari hálfleikur var ekki mikið fyrir augað og fór það svo að Chelsea vann 1-0. Enn á ný heldur liðið hreinu en síðan Thomas Tuchel tók við hefur liðið aðeins fengið á sig tvö mörk í átta deildarleikjum. Reyndar hefur liðið aðeins skorað níu mörk í leikjunum átta en það er annað mál.

Liverpool getur hvorki unnið né skorað á heimavelli þessa dagana. Síðan liðið tapaði á heimavelli gegn Burnley þann 21. janúar hefur liðið tapað fjórum leikjum til viðbótar á Anfield. Það sem meira er þá hefur liðið aðeins skorað eitt mark í leikjunum fimm, það í 1-4 tapi gegn Manchester City.

Chelsea stekkur upp í 4. sætið með 47 stig, einu meira en Everton sem á leik inni. Liverpool er í 7. sæti með 43 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira