Innlent

Áætla að hefja bólusetningar 70 ára og eldri í næstu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar

Til stendur að bólusetja 7.000 einstaklinga í þessari viku og sama fjölda í næstu viku, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir gert ráð fyrir að í næstu viku hefjist bólusetning einstaklinga á aldrinum 70 til 80 ára.

Þórólfur greindi einnig frá því að Pfizer hefði gefið út dreifingaráætlun fyrir aprílmánuð. Hún gerði ráð fyrir að Íslendingar fengju um 34 þúsund skammta, sem dugir til að bólusetja 17 þúsund einstaklinga.

Dreifingaráætlanir Moderna og AstraZeneca fyrir apríl liggja ekki fyrir. Þá sagði Þórólfur ekki vitað hvenær bóluefnið frá Janssen fengi markaðsleyfi.

Nokkuð var rætt um bóluefnin á fundinum en Þórólfur og Alma Möller landlæknir voru meðal annars spurð að því hvort þau væru ánægð með heimturnar hérlendis.

Þórólfur sagði að vissulega mætti spyrja ýmissa spurninga, til dæmis af hverju það tæki svo langan tíma fyrir framleiðendur að fá markaðsleyfi í Evrópu og hvort framleiðendur gætu ekki tekið saman höndum til að hraða framleiðslu.

Hann sagði unnið að þessu en eftirspurnin væri gríðarleg. 

Alma tók undir þetta og sagðist hefðu viljað sjá þetta gerast hraðar. Þá hefði mátt leggja áherslu á að velja bestu bóluefnin og auka framleiðslu á þeim.

Hún minnti hins vegar á að margar fátækari þjóðir stæðu afar höllum fæti þegar kæmi að bólusetningum og að ríkju þjóðirnar mættu ekki gleyma því að faraldrinum lyki ekki fyrr en allir hefðu verið bólusettir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×