Enski boltinn

Pep tjáði sig um Bartomeu: Saklaus þar til dómstólarnir sanna annað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barcelona verður alltaf félagið hans Pep Guardiola en hann spilaði þar í meira en áratug og hóf síðan stjóraferil sinn þar með frábærum árangri.
Barcelona verður alltaf félagið hans Pep Guardiola en hann spilaði þar í meira en áratug og hóf síðan stjóraferil sinn þar með frábærum árangri. Getty/Manchester City FC

Pep Guardiola, fyrrverandi knattspyrnustjóri Barcelona og núverandi stjóri Manchester City, segist fylgjast með því sem er að gerast hjá Barcelona.

Josep Maria Bartomeu, fyrrum forseti Barcelona, var handtekinn í byrjun vikunnar og þurfti að dúsa eina nótt í fangelsi. Á sama tíma var gerð húsleit hjá Barcelona.

Ofan á þessi læti þá eru síðan forsetakosningar hjá Barcelona á sunnudaginn kemur.

Josep Maria Bartomeu hætti skyndilega sem forseti Barcelona í október en hann er sakaður um að standa fyrir rógsherferð á netinu gagnvart fyrrverandi og núverandi leikmönnum Barca sem höfðu gagnrýnt hann fyrir óstjórnina á félaginu síðustu ár.

Sá sem tekur við sem forseti Barcelona hefur mikið og erfitt starf fyrir höndum þar sem fjárhagsstaðan er mjög slæm, liðið lítur ekki vel út og framtíð Lionel Messi í algjörri óvissu.

„Þetta er óþægilegt fyrir Bartomeu en ég vona að þetta endi vel,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi eftir 4-1 sigur á Úlfunum í gær.

„Hann er saklaus þar til dómstólarnir sanna annað,“ sagði Guardiola.

„Það eina sem ég hef áhyggjur af er að við verðum komin með nýjan forseta eftir eina viku. Þetta er mjög erfið staða hjá félaginu og nýr maður þarf að sýna hugrekki við að leiða félagið á næstu árum,“ sagði Guardiola.

„Ég vona að sem flestir munu kjósa og leiða besta félagið í heimi. Ég er nokkuð viss um að þau komi sterkari til baka,“ sagði Guardiola.

Pep Guardiola lék 263 leiki með Barcelona frá 1990 til 2001 og var síðan stjóri félagins í fjögur ár frá 2008 til 2012. Undir stjórn Barcelona þá vann félagið fjórtán titla af nítján mögulegum á fjórum leiktíðum sem er félagsmet.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.