Enski boltinn

Guardiola: Ég hendi þeim út úr liðinu sem halda að við séum búnir að vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola ætlar að halda sínum mönnum í Manchester City á tánum.
Pep Guardiola ætlar að halda sínum mönnum í Manchester City á tánum. Getty/Matt McNulty

Manchester City er að stinga af í ensku úrvalsdeildinni en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur varað sína menn við því að slaka eitthvað á.

Manchester City vann sinn tuttugasta leik í röð í öllum keppnum um helgina og er nú komið með tólf stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar tólf leikir eru eftir.

Guardiola varaði sína leikmenn við því að hann muni horfa eftir því hverjir þeirra ætli eitthvað að fara að slaka á.

„Þegar mér finnst að einhver haldi að þetta sé búið eða að þetta líti svo vel út, þá er sá leikmaður ekki að fara að spila hjá mér,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi í gær.

„Ég er gæddur því innsæi að vita nákvæmlega hvenær leikmenn eru ekki tilbúnir í það að gera það sem við ætlum okkur að gera,“ sagði Guardiola.

Manchester City liðið hefur ekki tapað síðan í nóvember og á nú möguleika á því að vinna fjórfalt því liðið er enn með í öllum keppnum.

„Við getum alltaf gert betur og það er markmiðið. Sérstaklega getur hver og einn bætt sinn leik. Allir leikmenn eiga að geta gert betur og þegar það gerist hjá öllum í liðinu þá verður liðið betra,“ sagði Guardiola.

City græddi á því um helgina að öll liðin í næstu sætum á eftir þeim, Manchester United, Leicester City, West Ham United og Chelsea, töpuðu stigum.

Guardiola hefur engu að síður áhyggjur af því að þetta gæti hrunið hjá Manchester City.

„Liverpool liðið er meistari en ekki við. Til að ná titlinum þá þurfum við enn að vinna átta, níu eða tíu leiki og það er mikið af leikjum. Það eru ótrúleg lið sem lenda í vandræðum í fjórum eða fimm leikjum í röð. Það getur líka gerst fyrir okkur,“ sagði Guardiola.

„Það gerðist á síðasta tímabili og við lentum líka í því í byrjun á þessu tímabili. Við gáum ekki unnið þrjá leiki í röð í byrjun tímabils. Það er ástæðan fyrir því að við megum ekki slaka neitt á,“ sagði Pep Guardiola.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.