Viðkomandi kom til landsins fyrir skömmu, fór í tvöfalda skimun á landamærum með fimm daga sóttkví á milli líkt og reglur gera ráð fyrir. Hann greindist svo neikvæður í báðum sýnatökum.
Þegar hann ætlaði síðan að fara úr landi og fór í skimun til að fá PCR-vottorð greindist hann með veiruna. Hann var í kjölfarið sendur í mótefnamælingu en niðurstöðu úr henni var beðið í morgun. Fyrst um sinn var smitið því flokkað sem innanlandssmit utan sóttkvíar.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í samtali við fréttastofu að fróðlegt yrði að sjá hvort að viðkomandi væri með mótefni og hefði þá sloppið í gegnum landamærin með neikvætt sýni.