Erlent

Ís­jaki stærri en höfuð­borgar­svæðið brotnaði af Suður­skaut­sísnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þessi mynd var tekin af sprungunni í norðanverðri Brunt-íshellunni úr flugvél í janúar.
Þessi mynd var tekin af sprungunni í norðanverðri Brunt-íshellunni úr flugvél í janúar. BAS/AP

Risavaxinn borgarísjaki sem er stærri en höfuðborgarsvæðið að flatarmáli brotnaði af Brunt-íshellunni á Suðurskautslandinu á föstudag. Tæpur áratugur er liðinn frá því að breskir vísindamenn komu fyrst auga á sprungumyndun í ísnum.

Breska Suðurskautslandskönnunin (BAS) sem rekur Halley-athuganastöðina á Brunt-íshellunni sem liggur yfir Weddel-hafi við Austur-Suðurskautslandið segir að sprungan í um það bil 150 metra þykkri hellunni hafi víkkað um fleiri hundruð metra á örfáum klukkustundum á föstudagsmorgun, 26. febrúar. Jakinn hafi á endanum brotnað alveg frá íshellunni.

Ísjakinn er talinn um 1.270 ferkílómetrar að flatarmáli, nokkuð stærri en höfuðborgarsvæði Reykjavíkur. AP-fréttastofan segir að sprungan í Brent-íshellunni hafi lengst um allt að kílómetra á dag í janúar. Talað er um að jökull kelfi þegar hann brotnar út í sjó eða lón.

Skýringarmynd af Brunt-íshellunni á Suðurskautslandinu. Norðvesturhluti hellunnar brotnaði af 26. febrúar 2021.BAS

Fyrstu vísbendingarnar um að meiriháttar kelfing væri í uppsiglingu í Brunt-íshellunni komu fram í nóvember. Þá myndaðist ný sprunga í norðanverðri íshellunni sem stefndi að annarri stærri sprungu sem var fyrir við Stancomb-Wills-jökulinn.

BAS segir að nýi borgarísjakinn sé ekki talinn ógna Halley-athuganastöðinni. Tólf starfsmenn hennar hafi yfirgefið stöðina um miðjan febrúar en henni hefur nú verið lokað fyrir suðurhvelsveturinn.

Sjá einnig:  Kortleggja sprungur sem ógna rannsóknastöð á Suðurskautslandinu

Hilmar Guðmundsson, jöklafræðingur við Northumbria-háskóla á Bretlandi, sagði Vísi að ísjaki sem brotnaði af Brunt kæmi til með að reka hægt í vesturátt en að hann gæti verið á svæðinu í fleiri ár í apríl árið 2019. 

„Á endanum kemur hann til með að brotna upp og bráðna en það gæti tekið töluverðan tíma,“ sagði Hilmar sem hefur unnið reiknilíkön um sprungumyndun og kelfingu úr Brunt-íshellunni.

Skammt er síðan annar tröllaukinn ísjaki sem brotnaði frá Larsen C-íshellunni árið 2017 stefndi að landi á Suður-Georgíu, breskri eyju í Suður-Atlantshafinu. Sá jaki var margfalt stærri en sá sem brotnaði af Brunt-hellunni nú, um 5.800 ferkílómetrar að flatarmáli. Betur fór þó en á horfðist því ísjakann rak fram hjá eyjunni og brotnaði hann upp í smærri hluta.


Tengdar fréttir

Myndir sýna heimsins stærsta ísjaka

Liðsmenn breska flughersins hafa náð myndum af heimsins stærsta ísjaka sem nú stefnir í átt að Suður-Georgíu, breskri eyju í Suður-Atlandshafinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.