Erlent

Trump herðir tökin á Repúblikanaflokknum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti, á sviði í Flórída í gærkvöldi.
Donald Trump, fyrrverandi forseti, á sviði í Flórída í gærkvöldi. AP/John Raoux

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gærkvöldi að hann ætlaði sér ekki að sleppa tökunum á Repúblikanaflokknum. Þess í stað væri hann að herða tökin og gaf hann í skyn að hann gæti boðið sig fram aftur til forseta fyrir kosningarnar 2024.

Þá lýsti Trump því yfir að hann ætlaði sér ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk.

Þetta sagði Trump í ræðu á ráðstefnu bandarískra íhaldsmanna sem fram fór í Flórída um helgina. Ráðstefnan kallast Conservative Political Action Conference, eða CPAC. Ráðstefnan hefur iðulega verið haldin nærri Washington DC en var færð til Flórída þetta árið svo hægt væri að komast hjá samkomutakmörkunum vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar.

CPAC var ætlað að sýna tök Trumps á Repúblikanaflokknum. Gullstytta af forsetanum stóð nærri sviði ráðstefnunnar og gagnrýnendum hans í flokknum hafði verið meinað að taka þátt.

Í ræðu sinni fór Trump um víðan völl og fór meðal annars frjálslega um sannleikann. Forsetinn fyrrverandi notaði um 90 mínútna langa ræðu sína til að skjóta á marga af óvinum sínum.

Hann gagnrýndi embættismenn, dómara og flokksmeðlimi sína. Sagði að hundruð milljóna manna hefðu dáið vegna Covid-19 ef hann hefði ekki verið forseti og sýndi af sér transfóbíu, svo eitthvað sé nefnt.

Meðal andstæðinga Trump voru Repúblikanar sem hafa farið gegn honum og pólitískir andstæðingar í Demókrataflokknum og víðar. Hann gagnrýndi sömuleiðis samfélagsmiðlafyrirtæki og sakaði þau um að þagga í röddum íhaldsmanna.

Þá hunsaði Trump gamla hefð fyrir því að fyrrverandi forsetar forðist að gagnrýna nýja, til hliðar, og fór hann hörðum orðum um Joe Biden, núverandi forseta.

Trump sagði fyrsta mánuð Bidens í starfi hafa verið versta mánuð nokkurs forseta Bandaríkjanna.

Hann gagnrýndi Biden fyrir allt frá viðbrögðum hans við faraldri nýju kórónuveirunnar og áherslur hans í menntamálum og ítrekaði gamlar lygar sínar um að hann hefði í raun unnið kosningarnar í fyrra.

Meðal annars skammaðist Trump yfir Hæstarétti Bandaríkjanna og sagði að dómarar þar ættu að skammast sín fyrir það sem þau hefðu gert Bandaríkjunum. Þau hefði skort kjark til að standa við bakið á honum.

Þá sagði hann að það þyrfti að grípa til aðgerða vegna þessa umfangsmikla kosningasvindls sem hann hefur lengi ranglega haldið fram að hafi kostað sig sigur. Þrátt fyrir að kröfum Trump-liða hafi verið hafnað af tugum dómara, embættismönnum margra ríkja og jafnvel hans eigin ríkisstjórn, staðhæfði Trump að herðar þyrfti reglur og lög varðandi kosningar vegna þessa tilbúnu ásakana.

Það er í takt við það sem Repúblikanar í ríkisþingum Bandaríkjanna eru að gera víða.

Trump taldi upp þá þingmenn Repúblikanaflokksins sem greiddu atkvæði gegn honum í ákærunni gegn honum fyrir meint embættisbrot varðandi það að hvetja til árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar. Það voru tíu þingmenn í fulltrúadeildinni og sjö í öldungadeildinni.

Þá beindi Trump sjónum sínum sérstaklega að Lis Cheney, þriðja æðsta Repúblikananum, sem hefur sagt að Trump ætti ekki að koma að framtíð Repúblikanaflokksins með nokkrum hætti.

Forsetinn fyrrverandi ítrekaði að þessum þingmönnum ætti að vera vísað úr flokknum.

Samkvæmt frétt Politico var gerð könnun á CPAC, fyrir ræðu Trumps, þar sem 95 prósent gesta sögðu Repbúlikanaflokkin eiga að halda áfram eftir þeirri stefnu sem Trump hefði lagt. 68 prósent gesta sögðu Trump eiga að bjóða sig aftur fram 2024.

Trök Trumps á Repúblikanaflokknum eru augljóslega mikil enn, þó hann sé ekki lengur í Hvíta húsinu. 

Það gaf Trump í skyn að hann væri tilbúinn til að gera, þó hann verði 78 ára gamall í kosningunum 2024, og sagði hann: Mér gæti jafnvel dottið í hug að vinna þá í þriðja skiptið“. Einu kosningarnar sem Trump hefur unnið var árið 2016 og gerði hann það með minnihluta atkvæða. Þá tapaði Repúblikanaflokkurinn meirihluta sínum í öldungadeildinni á kjörtímabili hans.

„Með ykkar hjálp, munum við taka aftur fulltrúadeildina. Við munum vinna öldungadeildina og Repúblikani mun snúa aftur í Hvíta húsið. Hver ætli það verði?“ spurði Trump.

Hann kallaði eftir því að stuðningsmenn sínir styrktu baráttu hans fjárhagslega og veittu fé í pólitíska sjóði hans. Sjóði sem hann ætlar að einhverju leiti að nota til að halda tökum sínum á Repúblikanaflokknum.


Tengdar fréttir

Trump og Giuliani kærðir af þingmanni vegna árásarinnar

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið kærður fyrir alríkisdómstóli vegna árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar. Kæran var lögð fram af Bennie Thompson, þingmanni Demókrataflokksins.

Setja á fót nefnd til að rann­saka á­rásina á þing­húsið

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur greint frá því að til standi að þingið komi á fót óháðri rannsóknarnefnd sem ætlað verður að kafa ofan í saumana á atburðarásinni í og við þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar síðastliðinn. Þá réðst æstur múgur inn í þinghúsið og fimm létust, þar af einn lögregluþjónn.

Framleiðendur kosningavéla stefna á fleiri lögsóknir

Forsvarsmenn fyrirtækisins Dominion Voting Systems, sem framleiðir kosningavélar sem notaðar eru víða í Bandaríkjunum, hafa farið fram á það að færslur og myndbönd þar sem talað var um fyrirtækið á Facebook, YouTube, Twitter og Parler verði varðveittar af starfsmönnum fyrirtækjanna sem gera þessa miðla út.

Repúblikanar leita á náðir Trumps

Fyrir nokkrum vikum virtist mögulegt að tangarhald Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á Repúblikanaflokknum væri að losna. Hann var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni, vegna árásar stuðningsmanna hans á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, og leiðtogar flokksins gagnrýndu forsetann opinberlega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.