Erlent

Liz Cheney um Repúblikanaflokkinn: Við erum flokkur Lincoln, ekki QAnon og samsæriskenninga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Elizabeth Cheney er dóttir Dick Cheney, sem var varnamálaráðherra í forsetatíð George H.W. Bush og varaforseti George W. Bush.
Elizabeth Cheney er dóttir Dick Cheney, sem var varnamálaráðherra í forsetatíð George H.W. Bush og varaforseti George W. Bush. epa/Michael Reynolds

Liz Cheney hefur varað Repúblikanaflokkinn við því að horfa framhjá þætti Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í innrásinni í þinghúsið í Washington D.C. í janúar síðastliðnum.

Cheney sagði í viðtali í gær að flokkurinn ætti á hættu að útiloka sjálfan sig frá völdum ef honum tækist ekki að sannfæra meirihluta Bandaríkjamanna að honum væri treystandi til að stýra landinu með sannleikann að leiðarljósi.

Þá sagði hún að forsetinn fyrrverandi hefði logið að kjósendum flokksins í þeim tilgangi að „stela“ forsetakosningunum og að flokkurinn þyrfti að horfast í augu við hvað gerðist árið 2020 til að eiga möguleika á kosningasigri árið 2022 og því að taka aftur Hvíta húsið 2024.

Mataðir af röngum upplýsingum

Í viðtalinu við Cheney á Fox News kom bersýnilega í ljós að hún hyggst ekki hverfa frá gagnrýni sinni á Trump, sem hún sagðist ekki sjá fyrir sér í leiðtogahlutverki innan Repúblikanaflokksins.

Cheney stóð af sér atlögu flokkssystkina sinna í síðustu viku, þegar stór meirihluti neitaði að taka af henni embætti formanns þingflokks Repúblikana í fulltrúadeildinni, í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Hún ítrekaði í viðtalinu í gær að hún hefði ekki í hyggju að segja af sér og sagði repúblikana í heimaríki sínu Wyoming vera mataða af röngum upplýsingum um hvað átti sér stað í höfuðborginni í janúar.

„Það sem við vitum nú þegar jafngildir alvarlegasta broti sem nokkur hefur framið á forsetaeiðnum í sögu landsins. Þetta er ekki eitthvað sem við getum bara horft framhjá, þóst að hafi ekki gerst eða haldið bara áfram,“ sagði Cheney.

„Flokkurinn er hans“

Cheney, sem studdi ákærur á hendur forsetanum í fulltrúadeildinni, hefur á brattan að sækja en skoðanakannanir sýna að Trump er langvinsælasti repúblikani Bandaríkjanna.

Í viðtalinu fordæmdi hún einnig flokkssystur sína Marjorie Taylor Greene og sagði skoðanir hennar ekki eiga heima í Repúblikanaflokknum.

„Við erum flokkur Lincoln,“ sagði Cheney. „Við erum ekki flokkur QAnon eða gyðingahaturs eða helfararafneitara, né hvítrar þjóðernishyggju eða samsæriskenninga.“

Sjálf hafði Greene þetta að segja um Trump um helgina:

„Flokkurinn er hans. Hann tilheyrir engum öðrum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×