Erlent

Naval­ní fluttur í fanga­búðir: „Þær eru hræði­legar“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alexei Navalní í réttarsal fyrr í mánuðinum. Hann hefur verið dæmdur í rúmlega tveggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið skilorð þegar hann var fluttur meðvitundarlaus frá Rússlandi til Þýskalands eftir að eitrað var fyrir honum.
Alexei Navalní í réttarsal fyrr í mánuðinum. Hann hefur verið dæmdur í rúmlega tveggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið skilorð þegar hann var fluttur meðvitundarlaus frá Rússlandi til Þýskalands eftir að eitrað var fyrir honum. EPA-EFE/YURI KOCHETKOV

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið fluttur í fangabúðir rétt fyrir utan Moskvu þar sem hann á að sitja af sér tveggja og hálfs árs fangelsisdóm. Navalní var fluttur úr varðhaldi í fangelsinu í Moskvu á fimmtudag og var aðstandendum hans ekki gert viðvart um tilfærslu hans.

Navalní kom aftur til Rússlands fyrir akkúrat sex vikum síðan í fyrsta skipti síðan eitrað var fyrir honum. Hann var handtekinn um leið og hann steig út úr flugvélinni og hefur verið í haldi síðan. Hann var sakaður um að hafa brotið skilorð þegar hann var fluttur meðvitundarlaus frá Rússlandi til Þýskalands, eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinum Novichok.

Navalní er haldið í fangabúðum númer 2 í bænum Pokrov um 100 kílómetrum austur af Moskvu. Ruslan Vakhapov, aðgerðasinni í málefnum fanga í Rússlandi, segir aðstæðurnar í fangabúðunum hræðilegar.

„Þetta eru hræðilegar fangabúðir,“ sagði hann í samtali við fréttastofu Reuters í dag.

Að sögn Vakhapovs taka fangar þátt í að hafa hemil á öðrum föngum og beita aðra fanga ofbeldi fari þeir ekki eftir ströngustu reglum.

„Ef það þarf að koma í veg fyrir að Navalní hafi samskipti við aðra mun enginn tala við hann,“ sagði Vakhapov. „Ef eitthvað gerist mun hann ekki geta beðið um hjálp fyrr en lögmaðurinn hans kemur og heimsækir hann.“


Tengdar fréttir

Naval­ní fluttur milli fangelsa með leynd

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið fluttur úr varðhaldi í fangelsinu í Moskvu hvar honum hefur verið haldið að undanförnu. Ekki liggur fyrir hvert hann hefur verið fluttur.

Áfrýjun Navalnís hafnað

Áfrýjunardómstóll í Moskvu hefur hafnað áfrýjun Alexei Navalní varðandi fangelsisdóms sem hann hlaut nýverið. Stjórnarandstæðingurinn rússneski verður mögulega sendur til fanganýlendu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×