Landamæraverðir Dóminíska lýðveldisins fylgjast með fólki frá Haítí eftir að landamærum var lokað árið 2013.EPA/JOSE BUENO
Dóminíska lýðveldið mun hefja framkvæmdir við að reisa girðingu á landamærum þess að Haítí síðar á þessu ári. Um er að ræða 376 kílómetra löng landamæri og segir forseti lýðveldisins verkefnið miða að því að stemma stigu við smygli og koma í veg fyrir að óskráðir innflytjendur fari yfir landamærin.
„Á næstu tveimur árum viljum við stöðva alvarleg vandamál. Ólöglega innflytjendur, fíkniefnasmygl og tilfærslu stolinna bifreiða,“ sagði Luis Abinader, forseti Dóminíska lýðveldisins, í dag þegar hann kynnti verkefnið fyrir dóminíska þinginu.
Framkvæmd verkefnisins hefst á síðari hluta þessa árs en það hefur ekki verið gert opinbert hver kostnaðurinn við framkvæmdirnar er.
Girðingin verður sums staðar tvöföld, eða á þeim stöðum sem dómínísk yfirvöld telja flesta reyna að komast yfir landamærin. Þá verða hreyfiskynjarar á girðingunni, öryggismyndavélar sem greina andlit og innrauð skynjunarkerfi.
Samkvæmt mati dóminískra yfirvalda bjuggu um 500 þúsund haítískir innflytjendur í Dóminíska lýðveldinu árið 2018. Þar eru börn innflytjendanna, sem fæddust í lýðveldinu, ekki talin með en talið er að þau telji tugþúsundir. Haítíska samfélagið í Dóminíska lýðveldinu telur um fimm prósent allra íbúa en stór hluti þeirra hafa ekki fengið landvistarleyfi.
Yfir fjögur hundruð fangar flúðu úr fangelsi skammt frá Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, á fimmtudag. Yfirmaður fangelsisins lést í uppþotunum sem leiddu að fjöldaflóttanum.
Bandaríska löggæslustofnunin sem sér um að framfylgja ákvörðunum í útlendingamálum sætir nú mikilli gagnrýni fyrir að hafa flogið með að minnsta kosti 22 börn til Haítí, þvert á yfirlýstan vilja bandarískra stjórnvalda.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.