Innlent

Ó­lík­legt að allt höfuð­borgar­svæðið verði rýmt ef til eld­goss kemur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir ólíklegt að höfuðborgarsvæðið í heild sinni verði rýmt ef gýs nærri borginni.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir ólíklegt að höfuðborgarsvæðið í heild sinni verði rýmt ef gýs nærri borginni. Vísir/Sigurjón

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir mjög ólíklegt að höfuðborgarsvæðið allt yrði rýmt ef eldgos brytist út í nálægð við höfuðborgina. Rýmingaráætlun almannavarna ganga út á að rýma ákveðna hluta höfuðborgarsvæðisins.

Almannavarnir hafa farið yfir rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið í ljósi jarðhræringa á Reykjanesskaga. Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV.

Algengustu sviðsmyndir áætlunarinnar ganga út frá því að íbúar höfuðborgarsvæðisins yrðu færðir til innan þess eða heil hverfi yrðu rýmd. Dagur segir ólíklegt að rýma þyrfti allt svæðið.

„Höfuðborgarsvæðið í heild sinni, það væri mjög mikill ábyrgðarhluti að ætla sér að rýma það allt saman. Sérstaklega yfir einhvern lengri tíma,“ sagði Dagur í kvöldfréttum RÚV.

Hann segir ekkert svæði á landinu geta, með auðveldum hætti, tekið við öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, séð þeim fyrir húsaskjóli og vistum.

Vísindanefnd almannavarna sendi í kvöld út tilkynningu um niðurstöður fundar sem hún hélt síðdegis. Helstu niðurstöður hans voru þær að miðað við þau gögn og mælingar sem nú liggja fyrir muni annað hvort draga úr jarðskjálftavirkni eða skjálftarnir aukast á næstu vikum og mánuðum.

Þá telur vísindanefnd ólíklegt að eldgos sé í vændum en ekkert bendir til þess að svo stöddu að kvika sé að ryðja sér leið upp á yfirborðið. Þá sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að afar ólíklegt sé að til goss komi á Reykjanesskaga á næstu misserum.

Ef það mun hins vegar gerast sé ólíklegt að nokkur hætta að lífi steðji að. Eldgos á Reykjanesskaga séu flest lítil hraungos en þau geti hins vegar runnið nærri byggð.


Tengdar fréttir

Segja að ekkert bendi til að eld­gos sé í vændum

Prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands segir ekkert benda til þess nú að eldgos sé í vændum á Reykjanesskaga. Jarðskjálftahrinan sem riðið hefur yfir skagann undanfarna daga sé hins vegar ein sú öflugasta sem komið hefur á skaganum í áratugi.

Samkvæmt spá um hraunflæði myndi það ekki ógna byggð

Líklegustu eldgosasvæði vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesi eru talin suður af Keili og í áttina að Þorbirni. Þetta kemur fram í spá Eldfjallafræði og náttúruváhóps Háskóla Íslands. Samkvæmt spá um hraunflæði myndi það ekki ógna byggð en gæti flætt yfir Reykjanesbraut.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×