Auba­mey­ang hetja Arsenal í endur­komu­sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrra mark Aubameyang var einkar glæsilegt en hann lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð Benfica.
Fyrra mark Aubameyang var einkar glæsilegt en hann lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð Benfica. Vasilis Sykas/Getty Images

Arsenal vann 3-2 sigur á Benfica er liðin mættust í Grikklandi í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli og Arsenal því komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Fyrri hálfleikur á Karaisaki-vellinum í Grikklandi var nokkuð jafn í kvöld. Adel Taarabt – já hann – nældi sér í gult spjald á fimmtu mínútu leiksins en það voru heimamenn í Arsenal sem voru fyrri til að koma knettinum í netið. Það gerði Pierre-Emerick Aubameyang eftir sendingu Bukayo Saka þegar rétt rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum.

Á markamínútunni sjálfri jöfnuðu svo gestirnir eftir magnaða aukaspyrnu Diogo Gonçalves. Benfica fékk aukaspyrna tæpa 20 metra frá marki og Gonçalves smellhitti boltann einfaldlega sem söng í kjölfarið í netinu.

Staðan því 1-1 í hálfleik. Aubameyand kom knettinum í netið með snyrtilegri afgreiðslu eftir sendingu Martin Ødegaard í upphafi síðari hálfleiks en framherjinn var rétt fyrir innan varnarlínu Benfica og rangstaða dæmd.

Þegar klukkustund var liðin gerðist Daniel Ceballos sekur um skelfileg mistök. Helton Leite, markvörður Benfica, átti þá langa sendingu fram völlinn sem Daniel Ceballos ákvað – á miðlínunni – að flikka til baka á Bernd Leno markvörð.

Skallinn var laflaus, Rafa Silva náði boltanum og fór fram hjá Leno í markinu áður en hann negldi boltanum í autt markið. Staðan orðin 2-1 og brekkan brött fyrir Arsenal sem þurfti að skora tvö mörk á þrjátíu mínútum.

Vinstri bakvörðurinn Kiernan Tierny jafnaði metin aðeins sex mínútum síðar með frábæru skoti eftir að hafa fengið sendingu frá Willian vinstra megin í teig Benfica. Staðan því orðin 2-2 og Arsenal marki frá því að fara áfram.

Það mark kom á endanum þegar Saka átti frábæra fyrirgjöf frá hægri yfir á fjær þar sem Aubameyang stangaði knöttinn í netið og tryggði Arsenal 3-2 sigur. Arsenal því áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að leggja Benfica 4-3 samanlagt í tveimur leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira