Innlent

Mest traust til Land­helgis­gæslunnar en minnst til borgar­stjórnar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Um 86 prósent landsmanna segjast bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar.
Um 86 prósent landsmanna segjast bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm

Landhelgisgæslan er sú stofnun sem flestir landsmenn bera mest traust til samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup eða 86 prósent. Fæstir segjast aftur á móti bera mest traust til borgarstjórnar Reykjavíkur eða 22 prósent. Í langflestum tilvikum hefur traust landsmanna til ýmissa stofnanna aukist milli ára samkvæmt könnuninni.

Hástökkvararnir að þessu sinni eru heilbrigðiskerfið, sem hækkar um 22 prósentustig milli ára, og Seðlabankinn sem fer upp um 17 prósentustig. Þannig segjast 79 prósent landsmanna bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins og 62 prósent segjast bera mikið traust til Seðlabankans. Þá hefur traust til Alþingis og ríkissáttasemjara einnig hækkað mikið, eða um ellefu prósentustig og traust til dómskerfisins og Háskóla Íslands hækkar einnig um á bilinu sjö til níu prósentustig.

Almennt hefur traust landsmanna til hinna ýmsu stofnanna farið hækkandi milli ára.Gallup

Embætti forseta Íslands er sú stofnun sem mælist með næstmest traust fjórða árið í röð en 80 prósent segjast bera mikið traust til embættisins. Um 72 prósent bera mikið traust til lögreglunnar sem er svipað hlutfall og í fyrra. Þá nýtur þjóðkirkjan mikils traust um 32 prósenta landsmanna sem einnig er svipað hlutfall og í fyrra.

Þrátt fyrir að verma botnsætið hefur traust til borgarstjórnar Reykjavíkur aukist um fimm prósentustig frá því í fyrra en 22 prósent landsmanna segjast bera mikið traust til borgarstjórnar, sem þó nýtur meira trausts meðal borgarbúa en um 34 prósent Reykvíkinga segjast bera mikið traust til borgarstjórnar.

Könnunin var gerð dagana 4. til 15. febrúar með netkönnun þar sem spurt var hversu mikið eða lítið traust berð þú til stofnana og embætta sem birtust í tilviljunarkenndri röð. Alls voru 1.587 í úrtaki og var þátttökuhlutfall 52,9 prósent.

Borgarstórn Reykjavíkur nýtur minnst trausts samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.Vísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.