Erlent

Dæmdur til dauða fyrir morð á frönskum fjall­göngu­manni

Atli Ísleifsson skrifar
Lík Gourdel fannst ekki fyrr en í janúar 2015, eftir þátttöku þúsunda alsírskra hermanna í leitinni.
Lík Gourdel fannst ekki fyrr en í janúar 2015, eftir þátttöku þúsunda alsírskra hermanna í leitinni. EPA

Dómstóll í Alsír hefur dæmt mann til dauða vegna mannráns og morðs á frönskum fjallgöngumanni í landinu 2014.

Hervé Gourdel, 55 ára Frakka, var rænt þar sem hann var á ferð um Djurdjura-þjóðgarðinum, austur af Algeirsborg í september 2014. Síðar birtist myndband á netinu þar sem sjá mátti þegar Gourdel var afhöfðaður.

Hryðjuverkahópurinn Jund al-Khilafa, sem hefur haft tengsl við ISIS, lýsti yfir ábyrgð á ódæðinu.

Í frétt BBC segir að einn grunaðra, Abdelmalek Hamzaoui, hafi mætt í dómsal í gær, en réttað var yfir öðrum í þeirra fjarveru.

Hamzaoui hafnaði því að hafa átt þátt í morðinu og sagðist hafa verið bendlaður við málið til að „loka málinu og friðþægja Frakka“. Fjöldi samferðamanna Gourdel, sem einnig var haldið föngnum, sögðu Hamzaoui þó hafa verið einn úr hópi mannræningjanna.

Þó að Hamzaoui hafi verið dæmdur til dauða þá hefur dauðarefsingum ekki verið framfylgt í Alsír síðan 1993.

Mannræningjar Gourdel birtu myndbandið eftir að frönsk stjórnvöld neituðu að verða við kröfum þeirra um að árásum gegn liðsmönnum ISIS í Írak og Sýrlandi yrði hætt.

Lík Gourdel fannst ekki fyrr en í janúar 2015, eftir þátttöku þúsunda alsírskra hermanna í leitinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×