Erlent

Franskur gísl afhöfðaður í Alsír

Atli Ísleifsson skrifar
Hinum 55 ára Herve Gourdel var rænt í Kabylie-héraði í norðausturhluta Alsír á sunnudaginn.
Hinum 55 ára Herve Gourdel var rænt í Kabylie-héraði í norðausturhluta Alsír á sunnudaginn. Vísir/AFP
Alsírskur hópur íslamista hafa birt myndband sem virðist sýna þegar liðsmenn hópsins afhöfða franskan ferðamann, Herve Gourdel, sem var rænt síðastliðinn sunnudag.

Uppreisnarhópurinn Jund al-Khilafa hafði áður tilkynnt frönskum stjórnvöldum um sólarhrings frest til að stöðva loftárásir sínar á liðsmenn IS í Írak. Francois Hollande Frakklandsforseti og Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, höfnuðu báðir úrslitakostum samtakanna í gær.

Hinum 55 ára Gourdel var rænt í Kabylie-héraði í norðausturhluta Alsír á sunnudaginn.

Frakkar bættust í hóp með Bandaríkjunum í síðustu viku og hófu loftárásir á liðsmenn og stöðvar IS í Írak.

Liðsmenn IS hafa tekið þrjá Vesturlandabúa af lífi með sambærilegum hætti, tekið upp á myndband og birt á netinu - bandarísku blaðamennina James Foley og Steven Sotloff og breska hjálfarstarfsmanninn David Haines. Þá hafa samtökin einnig hótað því að drepa Alan Henning, breskan leigubílstjóra, sem var rænt þegar hann var við hjálparstörf í Sýrlandi í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×