Tólfti deildar­sigur City í röð kom á Goodi­son

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór í baráttunni við einn af markaskorurum kvöldsins, Phil Foden.
Gylfi Þór í baráttunni við einn af markaskorurum kvöldsins, Phil Foden. Jon Super/Getty

Það er fátt sem virðist ætla að stöðva Manchester City í átt að enska meistaratitlinum í ár. Liðið van sitt tólfta deildarsigur í röð í kvöld er þeir unnu 3-1 sigur á Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton.

City réð ferðinni frá fyrstu mínútu en það liðu hins vegar 32 mínútur þar til fyrsta markið leit dagsins ljós. Phil Foden skaut þá að marki Everton, boltinn hafði viðkomu í Seamus Coleman og fram hjá varnarlausum Jordan Pickford.

Þrátt fyrir að hafa ekki átt margar sóknir í fyrri hálfleik þá jöfnuðu heimamenn hins vegar metin. Eftir fyrirgjöf fór skot Lucas Digne í stöngina, af Richarlison og í netið. Heppnisstimpill en 1-1 í hálfleik.

Riyad Mahrez kom City yfir á 63. mínútu, verðskuldað, með glæsilegu skoti í stöng og inn og það var svo Bernardo Silva sem innsiglaði sigurinn þrettán mínútum fyrir leikslok með skoti úr teignum. Lokatölur 3-1 en Gylfi Þór spilaði allan leikinn.

City er með tíu stiga forskot á toppi deildarinnar, á granna sína í Manchester United. Everton er með 37 stig í sjöunda sæti deildarinnar, þremur stigum og leik minna en grannar sínar í Liverpool, en liðin mætast einmitt á laugardag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira