Enski boltinn

Stal skónum hans Rooney til að fæða fjölskylduna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ravel Morrison með þeim Jesse Lingard og Paul Pogba eftir að átján ára lið Manchester United varð meistari.
Ravel Morrison með þeim Jesse Lingard og Paul Pogba eftir að átján ára lið Manchester United varð meistari. Getty/John Peters

Ungir leikmenn fá oftast stjörnur í augun þegar þeir fá að æfa með stórstjörnum og fyrirmyndum sínum. Sumir fá þó annars konar glampa í augun.

Ravel Morrison er einn af þessum knattspyrnumönnum sem áttu að verða stórstjörnur en gleymdust fljótt þegar allt fór að ganga á afturfótunum og þeir að flakka á milli félaga.

Það var mikið látið með Morrison hjá Manchester United, talað um hann sem undrabarn og hann átti að vera næsti Wayne Rooney. Ævintýri undrabarnsins hjá United enduðu snögglega og flakkið hófst í kjölfarið.

Morrison spilaði fyrir ellefu félög í ellefu löndum og í sex heimsálfum en er nú án félags eftir að hann yfirgaf hollenska félagið ADO Den Haag í janúar.

Morrison var til í spjall með Rio Ferdinand og fleirum á dögunum þar sem þessi 28 ára knattspyrnumaður fór meðal annars yfir tíma sinn hjá Manchester United.

Sú saga sem vakti hvað mesta athygli var sagan af skóþjófnaði stráksins.

Við undirbúning viðtalsins þá fékk Rio Ferdinand meira að segja Sir Alex Ferguson til að segja sína skoðun á stráknum. Það var nefnilega Sir Alex sem henti Morrison inn í aðalliði Mancester United fyrir meira en tíu árum síðan.

„Strákurinn hefur gott hjartalag en varð undir í baráttunni vegna aðstæðna sinna,“ sendi Sir Alex Ferguson til baka.

„Ef ég gæti farið til baka þá myndi ég breyta níutíu prósent af mínu lífi. Þú verður samt að horfa fram á veginn og mátt ekki hugsa of mikið um fortíðina,“ sagði Ravel Morrison.

Það vantaði ekki gorgeirinn í Ravel Morrison á sínum tíma en hann rifjaði það upp þegar hann var í hádegismat með Ryan Giggs, Paul Scholes og Wayne Rooney og sagði Gary Neville að Arsenal væri með betra lið en Manchester United.

Ferdinand spurði Morrison hvort hann mundi eftir því að hafa sagt við United stjörnurnar að hann ætlaði að skrifa undir hjá Arsenal fljótlega.

„Já, af því að ég vildi spila með Thierry Henry. Auðvitað veit Rio að hann spilaði með súperstjörnuliði en ég var hrifnari af fótboltanum sem Arsenal spilaði,“ sagði Morrison.

Morrison réð ekki við væntingarnar og lífið utan fótboltans. Hann átti að vera næsti Wayne Rooney en yfirgaf Manchester United árið 2012. Morrison rifjaði það upp þegar hann stal fótboltaskóm Rio Ferdinand og Wayne Rooney til að hjálpa fjölskyldu sinni.

„Manstu þegar ég var rekinn út úr búningsklefanum fyrir að stela skónum ykkar,“ spurði Morrison.

„Ég var á lærlingslaunum og ég var ungur. Þú gast fengið 250 pund fyrir skópar. Ef þú náðir tveimur pörum þá varstu kominn með 500 pund og þá var hægt að fara heim og bjóða fjölskyldunni upp á kínverskan mat,“ sagði Morrison.

„Þið voruð vanir að fá þrjátíu pör af skóm. Ég ætlaði ekki að skaða ykkur en ég sá þegar skósendingarnar komu til þín og [Wayne] Rooney. Þið voruð að fá 20 til 30 pör í einu,“ sagði Morrison.

„Ég hugsaði að eitt par myndi ekki skipta miklu máli og ég gæti fyrir vikið komið með mat á borð fjölskyldunnar,“ sagði Morrison.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×