Erlent

Larry fagnar tíu ára starfsafmæli

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Kötturinn Larry, músaveiðari breska forsætisráðuneytisins, fagnar tíu ára starfsafmæli í dag.

Þessi ferfætlingur var ráðinn til forsætisráðuneytisins í valdatíð Davids Cameron og falið það verkefni að leysa úr rottukrísu sem komin var upp í Downing stræti tíu. Larry er væntanlega einn minnst umdeildi íbúi hússins undanfarinn áratug en hann er ekki fyrsti kötturinn til að gegna embættinu. Sá hét Rúfus og starfaði frá 1924 til 1930.

Samkvæmt upplýsingum á vef breska forsætisráðuneytisins vinnur Larry einna helst við að heilsa gestum, tryggja virkni öryggiskerfa og athuga hvort það sé ekki örugglega hægt að leggja sig á húsgögnunum.

Þetta skilti er frá því 2019 þegar mótmælendur fullyrtu að Larry vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngusamning Bretlands og ESB. Sjálfur tjáði Larry sig ekki um útgöngumálið við fjölmiðla.AP/Kirsty Wigglesworth

Heimsfrægð Larrys

Larry, sem fæddist í janúar árið 2007 og hefur starfað með þremur forsætisráðherrum, hefur ítrekað vakið heimsathygli. Meðal annars þegar Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kíkti í heimsókn árið 2019. Þá virtist Larry hafa lítinn áhuga á myndatöku Trumps og Theresu May, þáverandi forsætisráðherra.

Hann er þó ekki eini ferfætlingurinn í Downing stræti þessa dagana, en hundurinn Dilyn flutti inn með Boris Johnson forsætisráðherra í árslok 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×