Enski boltinn

Maguire skaut á Klopp: „Höfum ekkert fengið síðan fólk frá öðrum félögum byrjaði að tala um okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Maguire skammast í Craig Pawson, dómara leiks West Brom og Manchester United.
Harry Maguire skammast í Craig Pawson, dómara leiks West Brom og Manchester United. getty/Nick Potts

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, gaf í skyn að liðið fengi verri meðferð frá dómurum ensku úrvalsdeildarinnar eftir að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kvartaði undan því að United fengi hagstæða dómgæslu.

United gerði 1-1 jafntefli við West Brom á The Hawthornes í gær. Maguire var ósáttur við að mark West Brom hafi ekki verið dæmt af og vildi fá vítaspyrnu þegar hann féll eftir baráttu við Semi Ajayi í seinni hálfleik. Craig Pawson dæmdi reyndar upphaflega víti en breytti dómnum eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi.

Maguire kvartaði sáran eftir leikinn og skaut meðal annars á Klopp. „Allt síðan fólk úr öðrum liðum talaði um okkur höfum við ekki fengið neitt, nákvæmlega ekki neitt,“ sagði Maguire.

Enski landsliðsmaðurinn vísaði þar í viðtal við Klopp þar sem hann sagði að United hefði fengið fleiri víti á síðustu tveimur árum en hann síðan hann tók við Liverpool haustið 2015.

„Ég var svo viss um að þetta væri víti,“ sagði Maguire um atvikið þegar hann féll í vítateig West Brom. Hann var reyndar rangstæður en svo virtist sem það hafi gleymst að kanna það í VAR-herberginu.

Maguire var nálægt því að tryggja United sigurinn í uppbótartíma í gær en Sam Johnstone varði skalla hans frábærlega.

United er enn í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir að hafa gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum.

Næsti leikur United er gegn Real Sociedad í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.