Enski boltinn

Þýska goðsögnin segir Mo Salah vera „Lionel Messi Afríku“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum síðan að hann kom til Liverpool.
Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum síðan að hann kom til Liverpool. EPA-EFE/Shaun Botterill

Liverpool maðurinn Mohamed Salah fær kannski alveg það lof sem hann á skilið en hann á mikinn aðdáanda hjá Bayern München.

Þýska knattspyrnugoðsögnin og yfirmaður Bayern München hrósar Mohamed Salah mikið í nýju viðtali.

Karl-Heinz Rummenigge var sjálfur frábær framherji á sínum tíma en er nú framkvæmdastjóri hjá Bayern München.

Rummenigge ber mikið lof á Mohamed Salah og það sem hann hefur gert fyrir Liverpool liðið á síðustu árum.

„Að mínu mati þá er Salah Messi Afríku og auðvitað hefur hann getuna til að spila með bestu liðum Evrópu,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge í viðtali við ON Time Sports.

„Það er vel hægt að bera árangurinn hans [Salah] við það sem Messi og [Cristiano] Ronaldo gerðu með Barcelona og Real Madrid,“ sagði Rummenigge.

Salah hefur hjálpað Liverpool að vinna Meistaradeildina, ensku úrvalsdeildina og heimsmeistarakeppni félagsliða á síðustu árum.

„Eins og er þá ætlum við ekki að reyna að ná í Salah en það yrði mikill heiður að fá hann til okkar,“ sagði Rummenigge.

Titilvörnin hefur reynst Liverpool liðinu erfið en það er samt ekki hægt að kvarta mikið yfir framistöðu Mohamed Salah.

Mohamed Salah hefur skorað 22 mark í 32 leikjum á tímabilinu þar af 16 mörk í 22 deildarleikjum. Hann er með þriggja marka forystu á þá Harry Kane, Bruno Fernandes, Heung-min Son og Dominic Calvert-Lewin á listanum yfir markahæstu menn ensku úrvalsdeildarinnar.

Mohamed Salah hefur alls skorað 116 mörk fyrir Liverpool í öllum keppnum og er farinn að nálgast markahæstu leikmenn félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×