Enski boltinn

Klopp syrgir móður sína en gat ekki mætt í jarðarförina

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp segir móður sína hafa verið sér allt.
Jürgen Klopp segir móður sína hafa verið sér allt. Getty/Laurence Griffiths

„Hún var mér allt,“ segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, um Elisabeth móður sína sem lést 19. janúar síðastliðinn, 81 árs að aldri.

Klopp segir í þýska miðlinum Schwarzwalder Bote að vegna kórónuveirufaraldursins hafi hann ekki komist í jarðarför móður sinnar í Þýskalandi. Þýskaland hefur bannað fólki frá Bretlandi að koma til landsins nema í sérstökum neyðartilvikum, og við komuna aftur til Bretlands þarf fólk að fara í 10 daga sóttkví.

„Hún var mér allt. Hún var sannkölluð móðir í þeim besta skilningi sem hugsast getur. Sem sannkristinn maður þá veit ég að hún er á betri stað núna,“ sagði Klopp.

Klopp heimsótti móður sína síðast á áttræðisafmæli hennar og sagði að um leið og aðstæður leyfðu yrði haldin viðeigandi minningarathöfn henni til heiðurs.

Klopp, sem á tvær systur, þær Stefanie og Isolde, missti föður sinn Norberg árið 2000 eftir alvarleg veikindi en Norberg var þá 66 ára.

Liverpool hefur ekki gengið sem skyldi í síðustu leikjum. Liðið tapaði gegn Burnley á heimavelli 21. janúar og hefur síðan einnig tapað bikarleik gegn Manchester United og deildarleikjum gegn Brighton og Manchester City, en unnið Tottenham og West Ham. Næsti leikur liðsins er gegn Leicester á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×