Enski boltinn

Man. Utd mætir Real Sociedad á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United fer til Ítalíu en ekki Spánar í næstu viku.
Manchester United fer til Ítalíu en ekki Spánar í næstu viku. Getty/Alex Pantling

Fyrri leikur enska liðsins Manchester United og spænska liðsins Real Sociedad, í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta, mun fara fram í Tórínó á Ítalíu í næstu viku.

Þetta er meðal annars staðfest á heimasíðu United í dag.

Sóttvarnalög á Spáni koma í veg fyrir að leikmenn United megi koma inn í landið og spila í San Sebastián, á heimavelli Sociedad, án þess að fara í sóttkví við komuna til landsins.

Leikjadagskráin er þétt hjá United og því var ekki annað í boði en að færa leikinn. United mætir West Ham í enska bikarnum í kvöld, WBA í úrvalsdeildinni á sunnudag og svo Sociedad á fimmtudaginn í næstu viku, áður en liðið tekur á móti Newcastle 21. febrúar.

Seinni leikur United og Sociedad, sem er til að mynda með tvo fyrrverandi íbúa Manchester í sínum röðum, þá Adnan Januzaj og David Silva, fer fram á Old Trafford 25. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×