Erlent

Hakkari reyndi að eitra fyrir heilli borg

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuárásin er til rannsóknar en enginn hefur verið handtekinn vegna hennar.
Tölvuárásin er til rannsóknar en enginn hefur verið handtekinn vegna hennar. Vísir/Getty

Embættis- og löggæslumenn í Pinellassýslu í Flórída í Bandaríkjunum tilkynntu í kvöld að hakkari hefði náð stjórn á tölvukerfi vatnshreinsistöð borgarinnar Oldsmar og reynt að eitra fyrir borgarbúum.

Hakkarinn jók magn vítissóda í vatninu en athugull starfsmaður tók eftir því að einhver væri kominn inn í kerfið og fylgdist með honum gera breytingar. Hann lagaði kerfið um leið og tölvuþrjóturinn fór úr því. Breytingin hafði þannig ekki áhrif á vatn borgarbúa.

Bob Gualtieri, fógeti sýslunnar, segir að tölvuþrjóturinn hafi aukið magn vítissóda úr um hundrað hlutum af hverjum milljón í rúmlega ellefu þúsund hluta af miljón. Það væri hættulegt magn.

Í umfjöllun Vice er útskýrt að í litlu magn vítissóda sé bætt við neysluvatn til að draga úr riði lagna og lækka sýrustig. Í miklu magni geti það valdið bruna á húð og augum.

Samkvæmt Tampa Bay Times er tölvuárásin til rannsóknar en enginn hefur verið handtekinn vegna hennar. Fógetinn nýtur aðstoðar Alríkislögreglu Bandaríkjanna og annarra löggæslustofnana. Þá hafa yfirvöld annarra borga, sem nota sambærilegt tölvukerfi verið varaðar við árásinni.

Gualtieri sagði á blaðamannafundi í dag að öryggisráðstafanir hefðu að öllum líkindum greint breytingar á sýrustigi vatnsins og neysluvatn hefði líklegast ekki orðið fyrir mengun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.