Enski boltinn

Boltastrákur á Etihad fyrir nokkrum árum en núna í aðalhlutverki í sigri á meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Foden var að flestra mati besti maður vallarins þegar Manchester City skellti Liverpool, 1-4.
Phil Foden var að flestra mati besti maður vallarins þegar Manchester City skellti Liverpool, 1-4. getty/Laurence Griffiths

Phil Foden átti frábæran leik þegar Manchester City vann Englandsmeistara Liverpool, 1-4, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Ekki er langt síðan Foden var boltastrákur á Etihad, heimavelli City.

Foden skoraði fjórða og síðasta mark City gegn Liverpool og kórónaði þar með flottan leik sinn. Þetta var fyrsti sigur City á Liverpool síðan 2003. Þá var Foden aðeins þriggja ára gamall.

Eftir leikinn í gær birti Foden skemmtilegar myndir á Twitter. Á annarri þeirra sést hann skora gegn Liverpool og á hinni er hann boltastrákur á Etihad fyrir sjö árum. Á myndinni fagnar Stevan Jovetic marki og bak við hann situr fjórtán ára gamall Foden.

Auk þess að skora fjórða mark City í gær lagði Foden upp annað mark liðsins fyrir Ilkay Gündogan. Sá þýski skoraði tvö fyrstu mörk City í leiknum og klúðraði vítaspyrnu.

City hefur nú unnið fjórtán leiki í röð í öllum keppnum. Liðið er með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og á leik til góða.

Foden hefur skorað fimm mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur og tíu mörk í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×