Innlent

Sajid Sadpara er vonlítill um að faðir hans og samferðamenn finnist á lífi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í hópnum voru John Snorri Sigurjónsson, feðgarnir Ali og Sajid Sadpara og Juan Pablo Mohr frá Chile.
Í hópnum voru John Snorri Sigurjónsson, feðgarnir Ali og Sajid Sadpara og Juan Pablo Mohr frá Chile. Getty

Sajid Sadpara, sem var með John Snorra á K2 en þurfti að snúa við vegna bilaðs súrefniskútar, segist vonlítill um að Ali faðir hans og samferðamenn finnist á lífi.

Frá þessu greinir pakistanski miðillinn The Nation en Sadpara kom fram á stuttum blaðamannafundi í borginni Skardu fyrir skömmu.

Sagði hann að björgunaraðgerðir ættu að snúast um að finna líkamsleifar en líkurnar á því að einhver gæti komist lífs af eftir þriggja daga dvöl í 8 þúsund metra hæða væru litlar sem engar.

„Því miður var ég án súrefnis og í 8.200 metra hæð um vetur. Mér fannst það hafa áhrif á líkamlega heilsu mína og andlega heilsu. Faðir minn sagðist vera með annan súrefniskút sem ég ætti að nota en þegar ég fór að setja á mig súrefnisgrímuna þá lak hún. Þannig að ég fór niður,“ sagði Sadpara á blaðamannafundinum.

Hann sagðist síðasta hafa séð til föður síns við svokallaðan „flöskuháls“, sem er í um 8.200 til 8.300 metra hæð.

„Ég held að hann hafi náð toppnum og verið á leið til baka. Það var vindasamt þessa nótt, sem hlýtur að hafa skapað vandamál.“

Forsætisráðherrann Imran Khan er sagður fylgjast náið með þróun mála og þá sagðist forsetinn Arif Alvi á laugardag biðja fyrir því að mennirnir fyndust heilir á húfi.


Tengdar fréttir

Leit heldur áfram í birtingu

Enn hefur ekkert spurst til Johns Snorra Sigurjónssonar og samferðamanna hans sem leitað hefur verið að á K2 í dag. Leit pakistanska hersins verður haldið áfram í dögun en um ríflega tveir sólarhringar eru liðnir síðan síðast heyrðist frá þeim. Aðstæður í fjallinu eru gríðarlega erfiðar og hefur frost farið vel yfir fjörutíu gráður í dag.

„Everest er eiginlega bara túristafjall miðað við þetta fjall“

„Þetta er bara agalegt í rauninni. Maður gerir sér enga grein fyrir hvernig staðan er hjá þeim og hvar þeir eru og hvort þeir séu þarna einhvers staðar í vari. Það er eiginlega það sem maður er að vonast eftir,“ segir Kári G. Schram, kvikmyndagerðarmaður í samtali við Vísi.

Samferðamaður Johns og Ali kominn í grunnbúðirnar

Sajid Sadpara, göngufélagi Johns Snorra sem sneri við á lokasprettinum, kom í grunnbúðir K2 nú eftir hádegi. Sajid sneri við úr fjórðu búðum fjallsins eftir að súrefniskútur hans hætti að virka og fékk hann aðstoð við að komast niður í grunnbúðirnar nú í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×