Þeir félagar lögðu af stað upp K2 ásamt syni Ali, Sajid Sapara, á fimmtudagskvöldið. Strax um nóttina lenti Sajid í vanda og snéri við. Þegar hann sá þremenningana síðast um klukkan fimm aðfaranótt föstudagsins voru þeir við flöskuháls í um 8.200 metra hæð en fjallið er 8.611 metra hátt. Sjá má staðsetninguna hér á myndinni fyrir neðan.

Ekkert hefur ekkert spurst til þremenningana síðan.
Pakistanski herinn hefur stýrt umfangsmikilli leit á svæðinu í gær og í dag. Þyrlur hafa verið nýttar við leitina. Vonir standa til að hægt verði að fljúga flutningavél á vegum hersins yfir fjallið. Þá hafa gervihnattarmyndir verið notaðar til að reyna að finna John Snorra og félaga.

Juan Pablo Mohr einn þremenninganna var í ferð sem fjallaferðaskrifstofan Seven Summit Treaks sá um skipulagningu á. Eigandi fyrirtækisins er einn þeirra sem tekur nú þátt í leitinni. Thaneswar Guragai samstarfsmaður hans segir leit enn í fullum gangi.
„Í dag gerðum við leitaráætlun út frá öllum mögulegum stöðum þar sem þeir gætu hafa fallið eða týnst. Alla mögulega staði á að skoða þegar þyrlurnar fljúga yfir,“ segir Thansewar.

Enn hafi þó ekkert sést til John Snorra og félaga. Hann segir kuldann gera leitina erfiða. Hann geti mælst allt að -75 gráður. Allir mennirnir séu þó reynslumiklir og í góðu formi og því séu allir enn að vona það besta. Það dimmi þó í Pakistan um tvö leytið að íslenskum tíma sem dragi úr möguleikum til leitar eftir það.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ræddi í gær við utanríkisráðherra Pakistans vegna leitarinnar. Hann segist þess fullviss um að pakistönsk stjórnvöld séu að gera hvað sem þau geta til að bjarga mönnunum.
„Það er augljóst að þetta mál er í algjörum forgangi hjá þeim stjórnvöldum.“





