Erlent

Freyja hafi vitað af fyrri dómi sem maðurinn hlaut fyrir morð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bæjarbúar í Malling minnast Freyju.
Bæjarbúar í Malling minnast Freyju. Vísir/Elín Margrét

Boðað hefur verið til minningarathafnar í Malling á Austur-Jótlandi sídegis í dag, til minningar um Freyju Egilsdóttur Mogensen, sem var myrt í síðustu viku. Nákomin vinkona Freyju segir í samtali við Ekstra Bladet að Freyja hafi vitað að eiginmaður hennar, sem hún hafði slitið samvistum við, hafi áður hlotið dóm fyrir morð.

Maðurinn tilkynnti lögreglu snemma á þriðjudagsmorgni að Freyja væri horfin. Tilkynningin þótti grunsamleg og fannst Freyja látin á heimili sínu. Líkamspartar hennar fundust bæði innandyra og í garðinum við húsið. Maðurinn sætir nú fjögurra vikna gæsluvarðhaldi en hann er sagður hafa játað á sig verknaðinn fyrir lokuðu réttarhaldi í Árósum á miðvikudag.

Bæjarbúar minnast Freyju

Í samtali við fréttastofu segir Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austur Jótlandi, að engar nýjar vendingar hafi orðið í málinu sem unnt sé að greina frá, umfram það sem þegar hafi komið fram.

Hverfið Veilgårdsparken í Malling er rólegt og fjölskylduvænt að því er virðist og einkennist af stórum og glæsilegum einbýlishúsum umhverfis lítinn garð með leikvelli. Eitt stóru einbýlishúsanna stingur nú í stúf við hin. Rauður og hvítur borði merktur Politi afmarkar nú alla lóðina og húsið og innsigli er á hurðinni.

Á tröppum útidyrahurðarinnar liggur fjöldinn allur af blómum og kertakerum sem vinir og nágrannar Freyju hafa lagt í minningu hennar. Sóknarprestur við kirkjuna í Malling staðfestir í samtali við fréttastofu að síðdegis hafi verið skipulögð minningarstund þar sem vinum, nágrönnum og öðrum íbúum bæjarins gefst færi á að tendra kerti í minningu Freyju. Kirkjan kýs að öðru leyti ekki að tjá sig um málið að svo stöddu. Bærinn sé í sárum.

Vinkonan segir Freyju og manninn ekki hafa átt í forræðisdeilu

Ekstra Bladet greinir frá því í dag, og hefur eftir náinni vinkonu Freyju, að hún hafi vitað af fortíð mannsins. Líkt og fram hefur komið hlaut hann árið 1996 dóm fyrir að hafa orðið fyrrverandi kærustu sinni og barnsmóður að bana í nóvember 1995. Freyja hafi óttast það mest, eftir að þau slitu samvistum, hvað maðurinn hennar fyrrverandi kynni að gera sjálfum sér.

Þetta segir Camilla Levisen, sem var með Freyju í námi, í samtali við blaðið. „Ég talaði síðast við hana á fimmtudaginn í síðustu viku á Messanger, og það virtist sem hún væri með sjálfri sér. Svo hún vissi væntanlega ekki hvað væri í uppsiglingu,“ segir Levisen. Hún segist aldrei hafa hitt mann Freyju en að hún hafi haft veður af því að hann hafi glímt við geðræn veikindi um langan tíma. Vinkonur hennar hafi stutt Freyju þegar hún tók ákvörðun um að slíta sambandinu.

Hún segir að svo virtist sem Freyja væri hamingjusamari og að léttara væri yfir henni eftir sambandsslitin. „En henni þótti það erfitt, að hann skildi ekki að hún vildi halda fjarlægð,“ segir Levisen. Þá segir hún að Freyja hafi eftir skilnaðinn í fyrra sagt vinkonunum frá því að maðurinn hafi hlotið dóm fyrir morð.

Hún og aðrar vinkonur Freyju hafi verið til staðar fyrir hana í gegnum skilnaðinn. „Hún var hrædd um, hvað hann kynni að gera sjálfum sér ef hún færi frá honum,“ segir Levisen, spurð hvort Freyja hafi verið hrædd við manninn. „En hún hefur aldrei lýst því yfir að hann myndi gera henni mein. Ég held að svo hafi heldur ekki verið, því þá hefði hún ekki leyft honum að koma inn á heimilið.“

Aðspurð segir Levisen að þau hafi ekki átt í forræðisdeilu. Þvert á móti hafi þau verið með samkomulag um hver væri með börnin hvenær. Levisen segir aftur á móti að þegar hún heyrði fyrst fréttirnar af hvarfi Freyju hafi hún strax fundið á sér að líklega hafi maðurinn haft eitthvað með hvarf hennar að gera. „Ég fór beint heim til mannsins míns og sagði „hún er ekki hér lengur,“ segir Levisen.

Allir þekkja alla í Malling

„Þetta er sprengjuhögg sem hefur dunið á samfélagi okkar,“ segir Henny Møller, íbúi í Malling, í samtali við Jyllands Posten. „Það er svo einkennilegt, því ef þetta hefði gerst í Kaupmannahöfn, þá hefi maður hugsað: „jæja, en það var nú gott að þetta gerðist ekki hérna hjá okkur í yndislegu, litlu Malling, þar sem svona lagað hreinlega gerist ekki,“ bætir Møller við.

Hún er í forsvari fyrir Facebook-hóp íbúa í Malling og segir marga hafa sett sig í samband við sig eftir að fréttir bárust af þessum hræðilega atburði. Hún lýsir Freyju sem afar viðkunnalegri konu. Málið hafi fengið á alla bæjarbúa og sé á allra vörum. Það hafi aftur á móti líka sýnt sig á þessum erfiðu tímum hversu mikil samheldni er meðal bæjarbúa.

„Allir þekkja hvern annan í kross hér í Malling. Og því voru margir sem settu sig í samband við mig og sögðu einfaldlega; „Henny, hvað getum við gert?“ En það var ekki margt sem hægt var að gera,“ segir hún við Jyllands Posten.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.