Enski boltinn

Kicker: Ekki eins góður og Liverpool menn halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ozan Kabak verður í sviðsljósinu í leikjum Liverpool á næstunni. Hversu góður er strákurinn?
Ozan Kabak verður í sviðsljósinu í leikjum Liverpool á næstunni. Hversu góður er strákurinn? Getty/Andrew Powell

Það verður mikil pressa á hinum unga Tyrkja Ozan Kabak þegar hann klæðist Liverpool treyjunni í fyrsta sinn. Væntanlega verður það á móti Manchester City um helgina.

Liverpool hefur verið að leita að miðverði til að fylla í skarð hins meidda Virgil van Dijk og ákvað að veðja á ungan og skapmikinn Tyrkja.

Ozan Kabak talaði sjálfur um hrifningu sína af Virgil van Dijk og að Hollendingurinn hafi ráðið mestu um mikinn áhuga hans á að koma til Liverpool en þarna er kannski strax kominn ósanngjarn samanburður.

Í öllum miðvarðarvandræðum Liverpool er líklegt að Jürgen Klopp þurfi að henda Ozan Kabak strax út í djúpu laugina. Þrátt fyrir ungan aldur þá er Kabak þegar búinn að spila 55 leiki í þýsku deildinni.

Það eru samt einhverjir spekingar sem hafa varað Liverpool við því að Kabak sé kannski ekki eins góður og þeir og margir aðrir halda að hann sé.

Samanburður við Virgil van Dijk strax í upphafi er engum til góðs og þá hafa liðin sem hann hefur spilað með í Þýskalandi fallið úr deildinni. Stuttgart féll og Schalke liðið er svo gott sem fallið líka.

Samkvæmt umfjöllun í þýska stórblaðinu Kicker þá er ýjað að því að Liverpool hafi kannski verið að kaupa köttinn í sekknum.

Ozan Kabak var einu sinni orðaður við Bayern München en þýska stórliðið missti áhugann á leikmanninum þegar útsendarar þess skoðuðu hann betur.

Þetta hefur líka verið erfitt tímabil fyrir Ozan Kabak, hann var að spila í lélegustu vörninni í lélegasta liði deildarinnar og endaði í fjögurra leikja banni fyrr í vetur fyrir að hrækja á mótherja. Hann er með allt annað en góða meðaleinkunn hjá Kicker í vetur.

Á móti kemur voru vandræðin og vesenið á Schalke ekki að hjálpa ungum leikmanni og hver veit nema að Jürgen Klopp takist að gera háklassa leikmann úr honum eins og svo svo mörgum öðrum í gegnum tíðina. Stuðningsmenn Liverpool halda í þá von þrátt fyrir svolítið sláandi dóm Kicker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×