Þetta segir í frétt Fréttablaðsins í morgun þar sem haft er eftir Heiðu Björgu að hún hafi fengið mikið af áskorunum um framboð og að hún útiloki nú ekkert í þeim efnum.
Áður hafði Heiða Björg beðist undan að taka þátt í skoðanakönnun meðal flokksmanna um frambjóðendur í komandi kosningum. Hrannar B. Arnarson, eiginmaður Heiðu Bjargar, átti sæti í uppstillingarnefndinni en vék úr henni fljótlega eftir að hún hóf störf.
Mikið hefur verið fjallað um skoðanakönnunina meðal flokksmanna þar sem fjórar konur – Helga Vala Helgadóttir þingkona, Kristrún Frostadóttir hagfræðingur, Ragna Sigurðardóttir, formaður UJ og Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona – og einn karlmaður, Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður hjá Stundinni, skipuðu fimm efstu sætin. Rósa Björk hefur nú tilkynnt að hún sækist eftir því að leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.
Athygli vakti að þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut ekki brautargengi í téðri skoðanakönnunun, og tilkynnti að endingu að hann myndi afþakka sæti á lista. Ágúst Ólafur bauðst til að taka annað sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, en sagðist afþakka sæti þegar uppstillingarnefnd bauð honum þriðja sæti.
Heiða Björg tók sæti í borgarstjórn árið 2015 og var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar árið 2017. Hún hafði betur gegn þingkonunni Helgu Völu Helgadóttur í varaformannskjöri á landsfundi flokksins í nóvember síðastliðinn.