Hún segir þetta gert til að mæta þörfum starfsfólks og þingmanna með lítil börn og nýbakaðra foreldra. „Þetta er liður í því að mæta þörfum fólksins hérna og bara sjálfsögð þróun,“ segir Ragna.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, birti í dag myndir af herberginu, sem er á fyrstu hæð Alþingishússins, og hefur hlotið nafnið Hreiðrið.
Þar þakkar hún þingvörðum og starfsfólki Alþingis fyrir framtakið. „Ég hlakka til að hafa það huggulegt með unganum mínum í vinnunni en fyrst þarf ég víst að unga honum út,“ segir Þórhildur Sunna.
Mikið barnalán er í þingflokki Pírata en Þórhildur Sunna fór í fæðingarorlof í gær og á von á sínu fyrsta barni á næstunni. Halldóra Mogensen, einnig þingkona Pírata, átti dreng í nóvember og er nú í fæðingarorlofi.
Báðar stefna á framboð í kosningunum í haust og segir Þórhildur Sunna að herbergið muni því nýtast þeim vel þegar þær snúa aftur til vinnu.