Innlent

Dæmi um að veist sé að starfs­fólki verslana með of­beldi vegna grímu­notkunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, beinir því til almennings að sýna starfsfólki í verslunum kurteisi.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, beinir því til almennings að sýna starfsfólki í verslunum kurteisi. Vísir/Vilhelm

Dæmi eru um að viðskiptavinir sem ekki hafa verið með grímu í verslunum hafi veist að starfsfólki með ofbeldi þegar þeim hafi verið bent á að setja upp grímuna, en eins og allir ættu að vita er skylda að vera með andlitsgrímu inni í búðum.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Víðir sagði að eitt af því nýja sem við höfum þurft að venjast í kórónuveirufaraldrinum væri grímunotkunin. Það hafi yfirleitt gengið mjög vel.

„Fyrir einhverjum mánuðum síðan ræddum við um grímunotkunina og samskipti fólks við starfsfólk verslana. Þetta virðist hafa gengið mjög vel í langan tíma en svo ber við núna að við erum að fá tilkynningar frá starfsfólki í verslunum og rekstraraðilum að þetta sé aftur að koma upp núna, að starfsfólki þeirra sé sýndmikil óvirðing og ókurteisi og við höfum jafnvel fengið tilkynningar um að það hafi verið veist að starfsfólkinu með ofbeldi,“ sagði Víðir.

Hann sagði þetta „alveg ótrúlegt“ og lagði áherslu á að við værum öll í þessu saman.

„Starfsfólk í verslunum er bara að hjálpa okkur í þessari baráttu. Ekki vera þessi týpa sem er með leiðindi og ókurteisi við starfsfólkið í búðunum. Notum bara grímurnar og gerum þetta saman,“ sagði Víðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.