Erlent

Repúblikanar aðhafast ekkert gegn Greene og Cheney

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Marjorie Taylor Greene sést hér yfirgefa skrifstofu sína í þinghúsinu í gær.
Marjorie Taylor Greene sést hér yfirgefa skrifstofu sína í þinghúsinu í gær. Getty/Tasos Katopodis

Þingmenn Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákváðu á lokuðum fundi í gær að aðhafast ekkert gegn þingkonunum Marjorie Taylor Greene og Liz Cheney.

Bæði Demókratar og þingmenn úr röðum Repúblikana hafa krafist þess að Greene víki úr öllum nefndum á vegum þingsins sem hún á sæti í vegna umdeildra ummæla hennar en hún þykir afar öfgafull í skoðunum.

Greene segist meðal annars aðhyllast samsæriskenningar Qanon og þá hefur hún látið ýmis orð falla á samfélagsmiðlum sem vakið hafa óhug.

Repúblikanar ákváðu á fundi sínum í gær að víkja henni ekki úr þingnefndum. Leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni, Kevin McCarthy, sagðist hneykslaður á ummælum Greene, en benti á að þau hefði hún látið falla áður en hún tók sæti á þinginu.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, segir kröfuna verða tekna fyrir í þinginu með formlegum hætti.

Aðeins þarf einfaldan meirihluta til þess að nái fram að ganga og þar sem Demókratar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni má ætla að Greene verði vikið úr nefndunum. Krafan verður tekin fyrir í dag að því er fram kemur í frétt BBC um málið.

Það eru síðan hægrisinnaðir Repúblikanar á þinginu sem vildu víkja Cheney úr leiðtogahlutverki hennar úr flokknum. Hún var einn fárra Repúblikana sem greiddu atkvæði með því að ákæra Donald Trump, fyrrverandi forseta, fyrir embættisbrot í síðasta mánuði.

Það hefur vakið mikla reiði meðal öfgafullra íhaldsmanna í Repúblikanaflokknum sem vilja ekki sjá Cheney í leiðtogahlutverki innan flokksins vegna þessa. Þá hefur hún einnig verið óhrædd við að gagnrýna Trump opinberlega sem hefur ýft fjaðrirnar á stuðningsmönnum hans.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.