Aftur tapaði Liver­pool á Anfi­eld og Lingard skoraði tvö gegn Villa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Brighton fagna sigurmarkinu en vonsvikinn Robertson í forgrunni.
Leikmenn Brighton fagna sigurmarkinu en vonsvikinn Robertson í forgrunni. Andrew Powell/Getty

Brighton náði í óvænt þrjú stig á Anfield í kvöld er liðið vann 1-0 sigur á ensku meisturnum í Liverpool. Á sama tíma sóttu David Moyes og lærisveinar í West Ham þrjú stig á Villa Park er liðið vann Aston Villa 3-1.

Liverpool réð ferðinni, eins og búast var við, gegn Brighton á heimavelli í kvöld en ekki náðu þeir að skora í fyrri hálfleik. Þeir reyndu og reyndu en það voru hins vegar gestirnir frá Brighton sem skoruðu fyrsta markið á 56. mínútu.

Leandro Trossard kom þá boltanum á Steven Alzate sem skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark. Jurgen Klopp hreyfði aðeins við liðinu eftir markið en allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir ákefð Liverpool, og lokatölur 1-0 sigur suðurstrandarmanna. Sá fyrsti á Anfield síðan 1984.

Þetta er annað tapið á heimavelli í röð hjá ensku meisturunum en þeir töpuðu fyrir Burnley áður en þeir unnu á útivelli gegn Tottenham og West Ham. Liverpool er í fjórða sætinu með 40 stig, sjö stigum á eftir toppliði City, en þau mætast á sunnudag. Brighton er í fimmtánda sætinu.

Tomas Soucek hefur verið magnaður hjá West Ham og hann bætti við enn einu markinu fyrir Hamranna í dag. Hann skoraði fyrsta markið á 51. mínútu og fimm mínútum síðar var það nýi maðurinn, Jesse Lingard, sem tvöfaldaði forystuna en Lingard var í byrjunarlið West Ham.

Ollie Watkins klóraði í bakkann á 83. mínútu en lánsmaðurinn frá Manchester United, Lingard, var ekki hættur því hann kom Hömrunum í tveggja marka forystu á ný er hann skoraði þriðja mark West Ham og annað mark sitt tveimur mínútum eftir mark Villa. Lokatölur 3-1.

West Ham er í fimmta sæti deildarinnar með 38 stig, einungis tveimur stigum frá Liverpool sem er sæti ofar og sex stigum á eftir Manchester United í öðru sætinu. Aston Villa er í níunda sætinu með 32 stig en þetta var þeirra þriðja tap í síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira