Innlent

Tillaga um orkuskipti í flugi samþykkt á Alþingi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Rafmagnsvél frá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace. Stefnt er að því að þessi 19 sæta vél verði farin að fljúga með farþega eftir örfá ár.
Rafmagnsvél frá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace. Stefnt er að því að þessi 19 sæta vél verði farin að fljúga með farþega eftir örfá ár. MYND/HEART AEROSPACE.

Þingsályktunartillaga umhverfis- og samgöngunefndar um orkuskipti í flugi var samþykkt samhljóða með atkvæðum 53 viðstaddra þingmanna á Alþingi í dag. 

Samkvæmt henni verður þremur ráðherrum falið að setja á fót starfshóp sem á að vinna stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi, eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.

Samkvæmt tillögunni er markmiðið að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi innan tíu ára.

Í umræðum á Alþingi í gær kom fram að gert sé ráð fyrir að litlar rafmagnsflugvélar verði komnar á markað árið 2022. „Það er á næsta ári og því er raunhæft að áætla og hvetja til þess að þróun í átt að notkun umhverfisvænna orkugjafa í innanlandsflugi verði hafin árið 2030 þannig að mögulegt verði að knýja allan flugflotann sem starfræktur verður í innanlandsflugi á komandi árum á umhverfisvænum orkugjöfum,“ sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, þegar hann mælti fyrir tillögunni í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×