Enski boltinn

Fengið á sig sex víti og fengið þrjú rauð spjöld síðan hann kom til Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Craig Pawson sýnir David Luiz rauða spjaldið.
Craig Pawson sýnir David Luiz rauða spjaldið. getty/Nick Potts

David Luiz fékk á sig vítaspyrnu og var rekinn af velli þegar Arsenal tapaði fyrir Wolves, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arsenal náði forystunni á 32. mínútu með marki frá Nicolas Pépé. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks slapp Willian José í gegnum vörn gestanna, Luiz braut á honum, Craig Pawson dæmdi víti og gaf Brassanum rautt spjald. Rúben Neves skoraði af öryggi úr vítinu og jafnaði í 1-1.

Þetta var sjötta vítið sem Luiz fær á sig síðan hann kom til Arsenal í ágúst 2019 og í þriðja sinn sem hann er rekinn af velli sem leikmaður liðsins. Enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið á sig fleiri víti og fengið fleiri rauð spjöld á þessum tíma en Luiz.

Brassinn lýsti yfir óánægju sinni með dóminn á Instagram eftir leikinn í gær. „Ótrúlegt!!!!“ skrifaði Luiz og lét nokkra reiðikalla fylgja með.

Luiz var greinilega ekki sáttur með dómgæsluna í leiknum gegn Wolves.

Joao Moutinho skoraði sigurmark Wolves með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig á 49. mínútu.

Þegar átján mínútur voru til leiksloka var Bernd Leno, markvörður Arsenal, rekinn af velli fyrir að handleika boltann utan vítateigs. Rúnar Alex Rúnarsson kom inn á í kjölfarið og varð þar með fyrsti íslenski markvörðurinn til að leika í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal er í 10. sæti deildarinnar með 31 stig. Tapið í gær var það fyrsta hjá liðinu á þessu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×