Erlent

Draghi verði beðinn um að mynda nýja stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 73 ára Mario Draghi gegndi embætti seðlabankastjóra Evrópu í átta ár, frá 2011 til 2019.
Hinn 73 ára Mario Draghi gegndi embætti seðlabankastjóra Evrópu í átta ár, frá 2011 til 2019. Getty/Sean Gallup

Forseti Ítalíu mun í dag funda með fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, Mario Draghi, þar sem búist er við að hann fari þess á leit við Draghi að hann myndi nýja ríkisstjórn í landinu.

BBC segir frá þessu en greint var frá því í gær að leiðtogum flokkanna á ítalska þinginu hafi mistekist að ná saman um nýja meirihlutastjórn í kjölfar afsagnar Guiseppe Conte forsætisráðherra í síðustu viku.

Sergio Mattarella forseti hefur lýst því yfir að þörf sé á „þungavigtarstjórn“ í landinu. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið landið grátt og glímir það við mikla efnahagslega erfiðleika.

Talsmaður Mattarella hefur staðfest að fundur forsetans og Draghi muni fara fram í hádeginu. Kveðst forsetinn vona að ný ríkisstjórn muni njóta stuðnings meirihluta þingsins. Annars þyrfti að flýta kosningum sem myndu leiða til aukinnar óvissu í landinu.

Fimm stjörnu hreyfingin hefur lýst því yfir að flokkurinn muni ekki styðja ríkisstjórn undir forystu Draghi.

Hinn 73 ára Draghi gegndi embætti seðlabankastjóra Evrópu í átta ár, frá 2011 til 2019.

Forsætisráðherrann Conte sagði af sér eftir að Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, dró flokk sinn, Italia Viva, úr samsteypustjórn Contes.

Áður hafði Conte í fimmtán mánuði leitt samsteypustjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og hægriöfgaflokksins Bandalagsins. Sú stjórn sprakk þegar Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, dró flokkinn út úr stjórninni í tilraun til að tryggja nýjar kosningar. Það tókst hins vegar ekki eftir að Fimm stjörnu hreyfingin, Lýðræðisflokkurinn og fleiri flokkar ákváðu að snúa bökum saman og mynda nýja stjórn – aftur undir stjórn Contes.


Tengdar fréttir

For­sætis­ráð­herra Ítalíu búinn að segja af sér

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hefur sagt af sér embætti og er óljóst hvort að honum muni takast að setja saman nýja ríkisstjórn. Conte gekk á fund forsetans Sergio Mattarella í dag og tilkynnti um afsögn sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×