Enski boltinn

Rúnar Alex var ekki fæddur þegar þetta gerðist síðast hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson með knattspyrnustjóranum Mikel Arteta í leikslok í gær.
Rúnar Alex Rúnarsson með knattspyrnustjóranum Mikel Arteta í leikslok í gær. Getty/Nick Potts

Rúnar Alex Rúnarsson fékk óvænt sitt fyrsta tækifæri í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi þegar Arsenal tapaði á móti Wolves á útivelli.

Það leit ekki út fyrir það að Rúnar Alex fengi leiki í ensku úrvalsdeildinni á næstunni en fljótt skipast veður í lofti. Í gær gerðist nefnilega það sem hafði ekki gerst hjá Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í rúm 27 ár.

Bernd Leno fékk rauða spjaldið á 72. mínútu fyrir að taka boltann með hendi fyrir utan teig. Rúnar Alex tók þarf með stöðu hans í markinu.

Markvörður Arsenal hafði ekki fengið rauða spjaldið sína að David Seaman var rekinn af velli í leik á móti West Ham 24. nóvember 1993.

Seaman braut þá á sóknarmanni West Ham fyrir utan vítateig á 84. mínútu leiksins. Alan Miller kom í markið í staðinn.

Rúnar Alex fæddist 18. febrúar 1995 eða tæpum fimmtán mánuðum eftir að Seaman var rekinn af velli.

Fyrsti leikur Rúnars Alex skrifaði nýjan kafla í sögubækurnar því hann er fyrsti íslenski markvörðurinn sem spilar í ensku úrvalsdeildinni. Árni Gautur Arason var á mála hjá Manchester City en spilaði aldrei með liðinu í deildinni.

Rúnar Alex hafði spilað fimm leiki með Arsenal á leiktíðinni en enginn þeirra var í ensku úrvalsdeildinni. Rúnar Alex spilaði fjóra leiki í Evrópudeildinni og svo einn í enska deildabikarnum. Hann hefur nú fengið sjö mörk á sig í sex leikjum og haldið markinu þrisvar sinnum hreinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×