Erlent

Fordæmir dóminn yfir Navalní

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðlaugur kallar eftir því að Navalní verði sleppt.
Guðlaugur kallar eftir því að Navalní verði sleppt. Getty/Samsett

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kveðst vonsvikinn með fangelsisdóm sem rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hlaut í dag. Navalní var dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að hafa rofið skilorð.

Í tísti sem Guðlaugur sendi frá sér eftir að dómur yfir Navalní féll síðdegis í dag segir hann rangt að þagga niður í pólitískum andstæðingum og koma þeim fyrir bak við lás og slá. Navalní er einhver háværasti og áhrifamesti andstæðingur Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Segir Guðlaugur að dómurinn yfir Navalní minni á „ógnvekjandi fortíð.“

„Ég biðla til Rússlands að sleppa [Navalní] undir eins, sem og þeim sem ranglega eru í varðhaldi fyrir að mótmæla,“ skrifar Guðlaugur Þór. Talið er að um tvö hundruð mótmælendur hafi verið handteknir fyrir utan dómshúsið í Moskvu í morgun.

Sá fjöldi er þó ekki nema brot af því sem var á sunnudaginn þegar stærstu mótmæli í áratugaraðir áttu sér stað víðs vegar um landið vegna meðferðar stjórnarandstæðingsins. 5.750 voru handtekin, þar af rúmlega 1.900 í Moskvu.

Rauf skilorð meðvitundarlaus

Á meðan mótmælendur voru handteknir fyrir utan stóð Navalní inni í dómsalnum í eins konar glerbúri.

Hann var handtekinn við komuna til Moskvu á dögunum og gefið að sök að hafa rofið skilorð vegna umdeilds dóms sem hann fékk fyrir fjárdrátt árið 2014.

Navalní átti að gefa sig fram við lögreglu með reglulegu millibili. Það gerði hann ekki undir lok síðasta árs enda var hann á sjúkrahúsi í Berlín eftir að eitrað hafði verið fyrir honum í borginni Tomsk og hann verið fluttur meðvitundarlaus til Þýskalands. Rússnesk yfirvöld hafa verið sökuð um eitrunina, en segjast saklaus.


Tengdar fréttir

Saksóknarar segja fangelsiskröfu sanngjarna

Skrifstofa Ríkissaksóknara Rússlands segir það að krafa fangelsismálayfirvalda landsins um að stjórnarandstæðingnum Alexi Navalní verði gert að afplána þriggja og hálfs árs skilorðsbundinn dóm frá 2014 sé samkvæmt lögum og sanngjörn.

Fjögur þúsund hand­teknir í Rúss­landi

Meira en fjögur þúsund Rússar hafa verið handteknir í tengslum við fjöldamótmæli sem fara nú fram víða um Rússland. Verið er að mótmæla handtöku stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní og kalla mótmælendur eftir því að honum verði sleppt úr haldi og að Vladimír Pútín forseti stigi til hliðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×