Enski boltinn

Klopp útskýrði „rifrildið“ við Milner á hliðarlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Milner og Jürgen Klopp ræða á málin á hliðarlínunni í gær en Milner var allt annað en sáttur.
James Milner og Jürgen Klopp ræða á málin á hliðarlínunni í gær en Milner var allt annað en sáttur. Getty/John Walton

James Milner var ekki sáttur þegar Jürgen Klopp tók hann af velli í leiknum á móti West Ham í gær. Knattspyrnustjórinn útskýrði hvað var í gangi hjá þeim félögum í viðtölum eftir leikinn.

Jürgen Klopp tók James Milner af velli á 57. mínútu í 3-1 sigri Liverpool á West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Þá var staðan enn markalaus en reynsluboltinn virtist vera reiður knattspyrnustjóra sínum.

James Milner og Jürgen Klopp buðu í framhaldinu upp á smá rifrildi á hliðarlínunni eftir að miðjumaðurinn fór útaf og það vakti athygli margra enda Milner einn sá síðasti sem menn búast við að sé með eitthvað vesen.

Deilur Jürgen Klopp og James Milner urðu að minna máli en leit út fyrir í fyrstu því aðeins mínútu síðar hafði Mohamed Salah komið Liverpool í 1-0 í leiknum. Þá sáust þeir Klopp og Milner fagna markinu skælbrosandi saman.

Klopp útskýrði rifrildið við Milner á hliðarlínunni í viðtali við blaðamenn eftir leikinn.

„Ég hef stanslausar áhyggjur af meiðslum. Við erum að reyna að bjarga öllum og þannig var þetta með Millie líka,“ sagði Jürgen Klopp.

„Eins mikið og ég veit núna þá meiddist enginn í leiknum. Við spiluðum góðan leik og náðum í þrjú stig sem var algjörlega frábært,“ sagði Klopp.

Klopp segist hafa tekið Milner af velli af því að hann var að hlaupa of mikið.

„Við breyttum leikskipulaginu í hálfleik og Millie átti að spila aðeins aftar. Við sögðum við Millie, af því að hann stífnaði aðeins upp aftan í lærinu: Vertu rólegur, sendu boltann frekar en að hlaupa með boltann,“ sagði Klopp.

„Svo sá ég þennan langa sprett hjá Millie og hugsaði: Við misstum marks og misstum af mómentinu. Ég var virkilega, virkilega áhyggjufullur,“ sagði Klopp.

„Þegar hann kom af velli þá sagði hann við mig: Þú sagðir við mig að spila aftar. Nú hleyp ég minna og þá tekur þú mig útaf. Svo kom hann aftur til mín og sagði: Allt í lagi, góður punktur, góð ákvörðun, Allt í góðu,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×