Enski boltinn

Síðasti séns fyrir Liverpool sem er að landa varnarmanni

Sindri Sverrisson skrifar
Ben Davies til varnar í leik gegn Reading í ensku B-deildinni.
Ben Davies til varnar í leik gegn Reading í ensku B-deildinni. Getty/Barrington Coombs

Liverpool hefur náð samkomulagi um kaup á miðverði en þarf að klára kaupin í dag því nú er lokadagur félagaskiptagluggans sem opnast ekki aftur fyrr en í sumar.

Enskir miðlar og skúbbkóngurinn Fabrizio Romano greina frá því að Ben Davies muni skrifa undir samning hjá Liverpool í dag, að undangenginni læknisskoðun. Davies, sem á alnafna í Tottenham, er 25 ára gamall, örvfættur miðvörður Preston North End í ensku B-deildinni.

Að sögn Romano kostar Davies jafnvirði um 3,5 milljóna punda, eða rúmlega 620 milljóna íslenskra króna. Samkvæmt Sky Sports þarf Liverpool aðeins að greiða hálfa milljón punda við undirritun kaupsamningsins og gæti heildarupphæðin numið 1,1 milljón punda, auk þess sem Preston fái 20% af kaupverði verði Davies seldur frá Liverpool síðar.

Davies á aðeins sex mánuði eftir af núgildandi samningi sínum við Preston og hefur því mátt ræða við önnur félög. Skosku meistararnir í Celtic töldu sig í forystusæti um að fá Davies frítt næsta sumar, samkvæmt Sky en voru tilbúnir að semja um kaupverð í þessum mánuði ef þess þyrfti. Nú er hins vegar allt útlit fyrir að Davies fari til Liverpool.

Liverpool hefur átt í vandræðum vegna meiðsla varnarmanna en þeir Virgil van Dijk og Joe Gomez urðu báðir fyrir alvarlegum meiðslum á leiktíðinni og óvíst hvenær þeir snúa aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×