Enski boltinn

Liverpool sagt hafa áhuga á Mustafi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Shkodran Mustafi á æfingu Arsenal á dögunum.
Shkodran Mustafi á æfingu Arsenal á dögunum. Stuart MacFarlane/Getty

Liverpool íhugar, samkvæmt The Telegraph, að sækja varnarmanninn Shkodran Mustafi frá Arsenal. Mustafi hefur mest setið á bekknum hjá Arsenal að undanförnu en Liverpool sárvantar varnarmann.

Liverpool hefur lent í miklum vandræðum hvað varðar meiðsli hjá miðvörðum félagsins og nú síðast meiddust þeir Fabinho og Joel Matip í 3-1 sigrinum á Tottenham fyrir helgi. Var það fyrsti sigur Liverpool á nýju ári.

Ensku meistararnir hafa verið orðaðir við Sven Botman hjá Lille og Dayot Upamecano hjá Leipzig en hvorugt félagið vill selja í janúar svo Liverpool hefur þurft að horfa annað. Og nú segir Telegraph að þeir horfi til Arsenal.

Hinn 28 ára varnarmaður Shkodran Mustafi er einn af möguleikunum en Liverpool fylgist vel með stöðu hans. Hann hefur ekki byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni og á einungis hálft ár eftir af samningi sínum.

Einnig fara sögusagnir af því að Mustafi og Arsenal muni komast að samkomulagi um að rifta samningnum nú um helgina svo Mustafi gæti skipt frítt til Liverpool.

Síðasti varnarmaðurinn sem var orðaður við Liverpool var Aaron Long, varnarmaður New York Red Bulls í MLS-deildinni, en það yrði þá lánssamningur fyrir þann 28 ára varnarmann.

Mustafi hefur verið hjá Arsenal síðan 2016 og hann hefur spilað 151 leiki fyrir félagið. Í desember sagði umboðsmaður hans að hann ræddi við Barcelona varðandi Mustafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×