Enski boltinn

Gylfi aldrei verið ánægðari hjá Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur nokkrum sinnum verið fyrirliði Everton á þessu tímabili.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur nokkrum sinnum verið fyrirliði Everton á þessu tímabili. getty/Alex Pantling

Gylfi Þór Sigurðsson segist líklega aldrei hafa verið eins ánægður hjá síðan hann kom til liðsins og nú.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur leikið mikið með Everton að undanförnu. „Ég er mjög ánægður og hef sennilega ekki verið jafn ánægður hjá Everton síðan ég kom. Vonandi getum við byggt ofan á síðustu mánuði,“ sagði Gylfi í viðtali í leikskrá Everton.

„Það er mikill spenningur í kringum liðið og við erum allir ánægðir með það sem við erum að gera. Jafnvel þegar við spilum ekki vel náum við í góð úrslit sem er mjög jákvætt.“

Gylfi hefur að mestu leikið í sinni eftirlætisstöðu, sem fremsti miðjumaður, í síðustu leikjum Everton.

„Mér líður vel þar og þessi staða hentar mér vel. Ég hef alltaf verið sóknarsinnaður leikmaður frekar en að vera aftarlega og hefja sóknir þaðan.“

Gylfi hefur verið fyrirliði Everton í nokkrum leikjum á tímabilinu, eitthvað sem hann kveðst mjög stoltur af.

„Þetta er frábært félag sem á sér mikla sögu, topp félag í ensku úrvalsdeildinni. Margir frábærir leikmenn hafa spilað hér og eru hjá liðinu núna,“ sagði Gylfi sem segist ekki vera sérstaklega málglaður í búningsklefanum.

„Ég tala ekki mest þar en læt verkin tala inni á vellinum. Ég legg hart að mér á degi hverjum og geri mitt besta. Ég tek starfi mínu alvarlega og reyni að ganga fram með góðu fordæmi.“

Næsti leikur Everton er gegn Newcastle United á Goodison Park á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×