Erlent

Skipulagði árás gegn múslimum og stjórnmálamönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Þýskalandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregluþjónar að störfum í Þýskalandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Matthias Balk

Saksóknarar í Þýskalandi hafa ákært konu fyrir að hafa lagt á ráðin um að gera sprengjuárás gegn múslimum og stjórnmálamönnum í Bæjaralandi. Konan er einnig sökuð um aðra glæpi og er sögð hafa verið að byggja sprengju sem hún ætlaði að nota til árásarinnar.

Konan heitir Susanne G. og er hún sögð hafa byrjað að skipuleggja árás sína ekki seinna en í maí í fyrra. Hún fann upplýsingar um sprengjugerð á netinu og hafði orðið sér út um efni til að byggja eldsprengju.

Hún hafði komið höndum yfir bensín, flugelda og kveikiþræði þegar hún var handtekin í september.

AP fréttaveitan hefur eftir saksóknum í Bæjaralandi að konan Susanne G. hafi skipulagt árásina vegna fordóma sinna og fjarhægri sjónarmiða.

Konan er grunuð um að hafa sent sex nafnlaus bréf til þýsks stjórnmálamanns, félagssamtaka múslima og samtaka sem aðstoða hælisleitendur frá desember 2019 og til mars 2020. Bréfin innihéldu morðhótanir og í einu þeirra var byssukúla.

Síðasta sumar fór hún að beina hótunum sínum að lögregluþjónum og öðrum stjórnmálamanni. Hún er sögð hafa skoðað heimili þeirra og bíla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×