Konan heitir Susanne G. og er hún sögð hafa byrjað að skipuleggja árás sína ekki seinna en í maí í fyrra. Hún fann upplýsingar um sprengjugerð á netinu og hafði orðið sér út um efni til að byggja eldsprengju.
Hún hafði komið höndum yfir bensín, flugelda og kveikiþræði þegar hún var handtekin í september.
AP fréttaveitan hefur eftir saksóknum í Bæjaralandi að konan Susanne G. hafi skipulagt árásina vegna fordóma sinna og fjarhægri sjónarmiða.
Konan er grunuð um að hafa sent sex nafnlaus bréf til þýsks stjórnmálamanns, félagssamtaka múslima og samtaka sem aðstoða hælisleitendur frá desember 2019 og til mars 2020. Bréfin innihéldu morðhótanir og í einu þeirra var byssukúla.
Síðasta sumar fór hún að beina hótunum sínum að lögregluþjónum og öðrum stjórnmálamanni. Hún er sögð hafa skoðað heimili þeirra og bíla.