Erlent

Meira en 100 milljónir hafa greinst með kórónu­veiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin við bólusetningu í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru það land sem hefur farið verst út úr faraldrinum í heiminum; hvergi hafa fleiri smitast eða dáið.
Myndin er tekin við bólusetningu í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru það land sem hefur farið verst út úr faraldrinum í heiminum; hvergi hafa fleiri smitast eða dáið. Getty/David Ryder

Fjöldi þeirra sem greinst hefur smitaður af kórónuveirunni á heimsvísu er nú kominn yfir 100 milljónir manna, að því er fram kemur hjá Reuters fréttastofunni.

Er þar vísað í eigin talningu fréttastofunnar en tölfræði Johns Hopkins-háskólans vegna Covid-19 sýnir einnig meira en 100 milljónir greindra smita á heimsvísu.

Þetta þýðir að nærri 1,3 prósent mannkyns hefur smitast af veirunni. Þá hafa rúmlega 2,1 milljónir manna látist af völdum Covid-19. Dánartíðnin er 2,1 prósent samkvæmt greiningu Reuters.

Ein manneskja hefur smitast á 7,7 sekúndna fresti á jörðinni frá upphafi þessa árs og dagleg tilfelli eru rúmlega 660 þúsund.

Verst er ástandið í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi, Rússlandi og í Bretlandi en smitaðir í þessum fimm löndum eru rúmur helmingur allra þeirra sem hafa smitast í heildina. Þessar fimm þjóðir eru þó aðeins 28 prósent af heildarfjölda mannskyns.

Tölfræðin sýnir að faraldurinn er á miklu flugi; það tók ellefu mánuði uns 50 milljónir greindust smitaðar en aðeins þrjá mánuði uns sú tala var komin upp í 100 milljónir.

Ef litið er nánar til Bandaríkjanna þá hefur fjórðungur allra greindra kórónuveirusmita á heimsvísu greinst þar í landi. Bandaríska þjóðin telur um 330 milljónir eða um fjögur prósent mannkyns.

Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst með veiruna í Bandaríkjunum, alls meira en 25 milljónir, og hvergi hafa fleiri látist vegna Covid-19 eða tæplega 425 þúsund manns.

Það eru tvisvar sinnum fleiri dauðsföll en í Brasilíu sem er það land þar sem næstflestir hafa látist úr Covid-19.

Staðan er einnig slæm í Evrópu. Eins og staðan er nú greinist að meðaltali ein milljón nýsmitaðra yfir fjögurra daga tímabil og nærri þrjátíu milljónir hafa látið lífið.

Bretland varð í gær fimmta ríki heims, og fyrsta Evrópuríkið, þar sem meira en hundrað þúsund hafa látist vegna Covid-19. Áður höfðu yfir hundrað þúsund látist í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Mexíkó.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×