Fótbolti

Segir sína hug­mynda­fræði ekki ganga út á að spila 4-4-2

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lars Lagerback gæti snúið aftur í kringum íslenska landsliðsins fyrir komandi undankeppni.
Lars Lagerback gæti snúið aftur í kringum íslenska landsliðsins fyrir komandi undankeppni. getty/Liam McBurney/vísir/bára

Arnar Þór Viðarsson, nýráðinn A-landsliðsþjálfari, segir að hann hafi mikinn áhuga á að fá Lars Lagerbäck inn í þjálfarateymið. Hann segir þó að það verði mikilvægt að þeir tengi saman hvað varðar fótboltahugmyndafræði. Þetta sagði hann í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.

Arnar Þór var gestur Hjörvars Hafliðasonar í síðustu viku þar sem farið var yfir víðan völl. Í fyrri hlutanum var rætt um knattspyrnuferil Arnars, sem fór að mestu fram í Belgíu, en í síðari hlutanum farið yfir störf Arnars hjá KSÍ.

Þar var meðal annars rætt um mögulega afkomu Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfra Íslands, að landsliðinu á ný — en Lars er án starfs eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá Noregi fyrir áramót.

„Þegar að þessi hugmynd var nefnd við mig; hvort að ég hefði áhuga að tala við Lars og sjá hvort að það væri einhver flötur þar sem við gætum unnið saman, þá fannst mér það mjög spennandi. Mér fannst það spennandi því Lars hefur reynsluna af þessu liði og þessu starfsliði. Og öllu sem er í kring,“ sagði Arnar og hélt áfram.

„Það er Lars, að miklu leyti, ásamt Heimi og öðrum sem tóku þátt í þessari breytingu á allri umgjörðinni. Mér fannst spennandi að ræða við hann og hvort að það væri möguleiki í að fá hann í að koma inn í teymið og vera hluti af því. Í rauninni líka að miðla sinni reynslu til mín og Eiðs Smára og liðsins.“

Eins og áður segir er Lars ekki í starfi eins og er. Hinn 72 ára gamli Svíi stýrði síðast Noregi á árunum 2017 til 2020 en var rekinn fyrir jól. Ståle Solbakken tók við af honum en Arnar segir það mögulegt að Svíans bjóðist starf, meðal annars í Afríku, svo það er ekki staðfest að Lars komi inn í þjálfarateymið.

„Í fyrsta lagi hefur hann aðra möguleika sem er eðlilegt. Ég veit ekkert hvaða möguleikar það eru en ef ég kíki á FIFA dagatalið á næsta ári þá er Afríkukeppnin. Hann hefur verið í Nígeríu og það kæmi mér ekkert á óvart ef eitthvað land myndi hringja og spyrja hann um að taka Afríkukeppnina með þeim. Það er það fyrsta og hann þarf að vera laus.“

„Í öðru lagi þá þekki ég Lars ekki það vel. Við þurfum að tengja; ég við hann og hann við mig. Mín hugmyndafræði gengur ekki út á að spila 4-4-2 eins og hann gerði oftast. Mér finnst það líka mikilvægt að við kynnumst, tökum spjallið og tölum um fótbolta og hvort að það sé grundvöllur fyrir því að vinna saman.“

Hafnfirðingurinn segir að það sé mikilvægt að allir í þjálfarateyminu spili á sömu strengi en aðstoðarmaður Arnars er Eiður Smári Guðjohnsen.

„Það er mikilvægt í þjálfarateymi að þegar ég tala við leikmennina og segi A, að þá eru allir sem segja A. Það gengur ekki að Eiður segi eitthvað og svo komi ég og verði með allt aðra skoðun á hlutunum. Þetta þarf að vera allt á sömu blaðsíðunni og mér fannst það mikilvægast; að Lars líði vel með þetta og nái tengingu við mig sem persónu.“

Hann segist geta séð fyrir sér að nýta reynslu Lars meðal annars í undirbúningi fyrir leiki þar sem hann hefur verið í kringum landsliðsfótbolta nánast samfleytt síðan 1990; fyrst hjá U21 í Svíþjóð, síðan aðstoðarmaður sænska landsliðsins og svo þjálfað Svíþjóð, Nígeríu, Noreg og auðvitað Ísland.

„Til að taka dæmi, hvernig ég myndi sjá þetta. Ef tengingin er þarna og Lars myndi koma inn í þetta með okkur. Þá myndi mér finnast verðmætt að ræða við Lars um næsta andstæðing; hvernig setjum við upp leikinn.“

„Við vitum það að alveg eins og klúbbar eru með sína hugmyndafræði þá eru lönd líka með það. Spánn spila sinn fótbolta og Þjóðverjar sinn og ef að Lars er búinn að spila tíu sinnum við Þýskaland þá hefur hann kannski unnið tvisvar og gert tvö jafntefli. Það er hægt að fá mjög verðmætt „input“ hvernig hann hefur stillt upp leikjum áður fyrr gegn mismunandi taktík.“

Umræðuna um Lars og mögulega afkomu að landsliðinu má heyra eftir eina klukkustund og sjö mínútur.


Tengdar fréttir

Hver er Arnar Þór Viðarsson?

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til næstu tveggja ára. En hver er Arnar Þór Viðarsson?
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.