Fótbolti

„Varð kyn­tákn á HM en nú skiptir hann um feril“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúrik Gíslason í leik á HM í Rússlandi sumarið 2018.
Rúrik Gíslason í leik á HM í Rússlandi sumarið 2018. getty/Laurence Griffiths

Danski miðillinn Berlingske, BT, gerði Rúrik Gíslason að umfjöllunarefni sínu fyrir helgi en þar fjallaði miðillinn um skipti Rúriks; úr fótboltanum yfir í sjónvarpsheiminn. Fyrir helgi var tilkynnt að Rúrik myndi taka þátt í þýska sjónvarpsþættinum Let’s Dance.

„Varð kyntákn á HM en nú skiptir hann um feril,“ er fyrirsögn danska miðilsins þar sem fjallað er um skipti Rúriks. 

„Rúrik Gíslason varð mjög þekktur á HM í fótbolta 2018 þar sem hann spilaði með íslenska landsliðinu,“ segir í fréttinni.

„Hann fékk einungis 27 mínútur gegn Argentínu en það varð nóg til þess að konur heimsins byrjuðu að slefa yfir íslenska fótboltamanninum. Hann varð fyrirbæri á Instagram þar sem fylgjendur streymdu inn,“ segir enn fremur.

Þættirnir sem Rúrik tekur þátt í eru byggðir á bresku þáttunum Dancing with the Stars, sem haldnir eru um heim allan. Þættirnir hefjast á þýsku sjónvarpsstöðinni RTL í febrúar. Í þáttunum dansa frægir einstaklingar við atvinnudansara og fá atvinnudansararnir sjálfir að velja sér liðsfélaga.

Pörin keppa svo sín á milli í hinum ýmsu dansstílum og stefnum, þar til eitt par stendur uppi sem sigurvegari. Um er að ræða sömu uppsetningu og á þáttunum Allir geta dansað, sem sýndir hafa verið á Stöð 2.

Rúrik er þekktur í Danmörku því hann lék þar í nokkur ár. Fyrst með Viborg, síðar meir OB og loks FCK þar sem hann spilaði meðal annars í Meistaradeildinni og varð danskur meistari árið 2013. Hann tilkynnti í byrjun nóvember að skórnir væru komnir upp í hillu, í bili að minnsta kosti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×